Óformlegur fundur umhverfisráðherra Evrópu í Prag í Tékklandi
Þann 13. og 14. júlí fór fram óformlegur fundur umhverfisráðherra Evrópu í Prag í Tékklandi. Á dagskrá voru fjölbreytt mál eins og líffræðileg fjölbreytni, umhverfisáhrif stríðins í Úkraínu og áhrif breytinga loftslags á vatn, náttúru og jarðveg og hvernig ríki eru að vinna að auknu viðnámsþoli og aðlögun að loftslagsbreytingum.
Fram kom í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fundinum að Ísland taki að fullu undir það að brýnt sé að aðgerðum verði hrint í framkvæmd til að markmið Parísarsamkomulagsins um 1,5°C hlýnun nái fram að ganga en samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) þarf metnaður og árangur aðgerða að margfaldast til að svo megi verða. Í nóvember næstkomandi verði loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna haldinn í Egyptalandi. Gríðarlega mikilvægt sé að ríki heims standi öll með því samkomulagi sem áður var gert til að koma megi í veg fyrir frekari óafturkræfar afleiðingar loftslagsbreytinga.
Jafnframt kom fram í máli ráðherra að náttúruöflin séu Íslendingum ekki ókunn og margs konar náttúruhamfarir hafi valdið slysum og tjóni. Íslendingar séu vel búnir til að takast á við slíkar áskoranir. Unnið sé að því að auka viðnámsþrótt samfélagsins og þar með milda afleiðingar loftslagsbreytinga með því að koma aðlögun að loftslagsbreytingum með skipulögðum hætti inn í áætlanir. „Þess vegna er það forgangsmál í aðlögunaráætlun Íslands að horfa til þess hvernig hægt er að varðveita umhverfið og lífríkið innan borgar- og dreifbýlisumhverfis til að auka viðnám okkar gegn loftslagsbreytingum“ sagði Guðlaugur Þór.
Áhrif Úkraínustríðsins á umhverfismál voru einnig á dagskrá. Stríðið hefur þegar haft gríðarlega mikil áhrif á náttúru Úkraínu, jarðvegur og fersk vatn hefur mengast mikið, svo ekki sé talað um áhrif á skóglendi og lífríkið allt. Fulltrúar ríkjanna á fundinum lýstu öll yfir miklum stuðningi við Úkraínu og lögð var áhersla á að vinna nú þegar að aðgerðaáætlun sem gripið verður til þegar stríðinu líkur. Guðlaugur Þór lýsti yfir fullum stuðningi Íslands við úkraínsku þjóðina alla, mikilvægt væri að byggja upp á sjálfbæran hátt og nýta allar leiðir til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti og stuðla að notkun á grænum orkugjöfum. Jafnframt tók Guðlaugur Þór fram að þau Evrópuríki sem eru háð rússneskum stjórnvöldum um jarðefnaeldsneyti hafi gert mikil mistök.
Stefna um verndun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir Ísland í mótun
Líffræðileg fjölbreytni var einnig á dagskrá ráðherrafundarins, en vinna við rammasamkomulag um hnattrænar aðgerðir á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika er nú á lokametrunum. Ráðherra hefur látið vinna grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa sem sett verður í samráðsgátt fljótlega. Fyrir árslok verður lokið við mótun nýrrar stefnu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni fyrir Ísland, sem byggir á stefnu samningsins.
Fulltrúar EFTA ríkjanna nýttu tækifærið og funduðu sérstaklega meðan á fundinum stóð. Meðal þess sem var rætt var fyrirhugaður aðildarríkjafundur loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í nóvember (COP27) og tillögur Evrópusambandsins um hvernig ná eigi 55% markmiði um samdrátt í losun, en sumar tillögurnar munu óbreyttar hafa mikil áhrif á á flug og orkuskipti í flugi. Einnig var rætt um umhverfisákvæði fríverslunarsamninga EFTA .