Hoppa yfir valmynd
25. júlí 2022 Innviðaráðuneytið

Rampar vígðir á Akranesi, Kirkjubæjarklaustri og Hornafirði

Ægir Þór Sævarsson klippti á borða við veitingastaðinn Úps á Hornafirði, að viðstöddum Sigurjóni Andréssyni bæjarstjóra, og vígði þar með áttugasta rampinn. - mynd

Römpum í verkefninu Römpum upp Ísland fjölgar nú hratt um landið. Síðustu vikur hafa rampar verið settir upp og vígðir með viðhöfn á Akranesi, Kirkjubæjarklaustri og á Höfn í Hornafirði. Markmiðið með verkefninu er að setja upp þúsund rampa á næstu fjórum árum á landinu öllu. Áhersla er lögð á að leggja rampa við staði þar sem mannlíf er mikið.

Hreggviður Steinn Hendriksson klippti á borða við Gamla kaupfélagið á Akranesi þegar sjötugasti rampurinn var vígður um miðjan júlí. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, flutti ávarp af þessu tilefni og stór hópur fólks kom saman til að fagna þessum áfanga. Rampur nr. 75 var settur upp við veitingastaðinn Systrakaffi á Kirkjubæjarklaustri nokkrum dögum síðar.

Þá var áttugasti rampurinn vígður á Höfn í Hornafirði í síðustu viku. Þar klippti Ægir Þór Sævarsson á borða við veitingastaðinn Úps á Hornafirði, að viðstöddum Sigurjóni Andréssyni bæjarstjóra. Ægir glímir við Duchenne sem er sjaldgæfur og ólæknandi vöðvarýrnunar sjúkdómur. Í athafnarinnar dönsuðu allir með Ægi en ásamt Hafdísi Björk móður sinni hefur hann vakið athygli á lífinu með sjúkdómnum með söng og dansi á samfélagsmiðlum undir yfirskriftinni Dancing with Duchenne.

Verkefnið Römpum upp Ísland hefur þann mikilvæga tilgang að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, afþreyingu og þátttöku og stuðlar þannig að auknu jafnrétti allra. Römpunum er ætlað að veita hreyfihömluðum aukið aðgengi að verslun og þjónustu. Stofnaður var sjóður með aðkomu fyrirtækja og aðila sem stendur straum af kostnaði fyrir verslunar- og veitingahúsaeigendur. Rampar eru settir upp í góðu samstarfi eigenda bygginga og skipulagsyfirvalda í hverju sveitarfélagi. Haraldur Þorleifsson stjórnandi hjá Twitter og stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno er hvatamaður verkefnisins.

  • Rampur nr. 75 var nýlega settur upp við veitingastaðinn Systrakaffi á Kirkjubæjarklaustri. - mynd
  • Hreggviður Steinn Hendriksson klippti á borða við Gamla kaupfélagið á Akranesi þegar sjötugasti rampurinn var vígður um miðjan júlí. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri, flutti ávarp af þessu tilefni og stór hópur fólks kom saman til að fagna þessum áfanga. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta