Vegna forsíðufréttar Fréttablaðsins
Vegna fréttar á forsíðu Fréttablaðsins í dag, 29. júlí, vill utanríkisráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri: Engin áform eða hugmyndir eru uppi um uppbyggingu varnarmannvirkja á því svæði sem þar er til umfjöllunar. Enn síður á sér stað undirbúningsvinna eins og haldið er fram í fréttinni. Engin áform eru um uppbyggingu varnarmannvirkja í Finnafirði og engar beiðnir, hvorki formlegar né óformlegar, hafa verið lagðar fram af hálfu utanríkisráðuneytisins og staðhæfingar um beiðni Atlantshafsbandalagsins eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Fréttin er því röng.
Á grundvelli varnaráætlana leggur Atlantshafsbandalagið mat á þörf fyrir uppbyggingu varnarmannvirkja í bandalagsríkjum. Það er ákvörðun stjórnvalda bandalagsríkja hvers um sig hvort og hvaða varnarmannvirki eru byggð, þetta gildir einnig um Ísland þar sem íslensk stjórnvöld hafa lokaorð um alla varnartengda uppbyggingu. Samráð um uppbyggingu varnarmannvirkja á sér ávallt stað á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og slíkar ákvarðanir taka að sjálfsögðu mið af ástandi heimsmála hverju sinni.
Í ljósi þess að blaðamaður heldur því fram að engin svör hafi fengist frá utanríkisráðuneytinu við fyrirspurnum Fréttablaðsins, telur ráðuneytið rétt að taka eftirfarandi fram: Blaðamaður hafði samband við fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins sem er í sumarfríi erlendis og var vísað á staðgengil. Blaðamaður hafði ekki samband við staðgengil eða neinn hjá ráðuneytinu til þess að leita staðfestingar á þeim röngu upplýsingum sem hann byggði skrif sín á. Er þetta miður þar sem einfalt hefði verið að koma á framfæri upplýsingum og svara fyrirspurnum um málið.