Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2022 Matvælaráðuneytið

Úttekt um bætta stjórnsýslu MAR skilað til matvælaráðherra

Að ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, matvælaráðherra, hefur verið gerð úttekt á almennri lagaumgjörð, stjórnsýslu og starfsháttum matvælaráðuneytisins. Úttektin var unnin af Ásgerði Snævarr, lögfræðingi í forsætisráðuneytinu, sem var í vistaskiptum í matvælaráðuneytinu á meðan á úttektinni stóð. Úttektinni hefur verið skilað til matvælaráðherra en tilgangur hennar er að treysta faglegan grundvöll stjórnsýslu matvælaráðuneytisins.

Matvælaráðuneytið tók til starfa í núverandi mynd 1. febrúar síðastliðinn. Ráðuneytið byggir á þeim verkefnum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sinnti áður auk málefna landgræðslu og skógræktar.

Ráðuneytið setur mikinn fjölda reglugerða á ári hverju og úthlutar takmörkuðum gæðum í sjávarútvegi, fiskeldi og landbúnaði Það úrskurðar jafnframt í málum á æðra stjórnsýslustigi. Komið hefur fyrir að reglugerðir, ákvarðanir og úrskurðir ráðuneytisins í einstökum málum hafi leitt til málaferla og sætt gagnrýni af hálfu umboðsmanns Alþingis. Við þeim annmörkum og ábendingum hefur verið brugðist jafnóðum. Eftir sem áður leggur ráðuneytið áherslu á að leitast  við að fyrirbyggja ágreiningsmál þannig að ákvarðanir og aðgerðir ráðuneytisins séu traustar og standist skoðun.

Í úttektinni eru um 20 ábendingar sem varða lagaumgjörð og stjórnsýslu ráðuneytisins. Þar á meðal er lagt til að kanna hvort tilefni sé til að koma á fót undirstofnun eða ráðuneytisstofnun sem verði falin dagleg umsýsla landbúnaðarmála. Einnig að lagt verði mat á hvort elstu lagabálkar á málefnasviði ráðuneytisins uppfylli þær kröfur sem í dag megi leiða af stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum og að mótað verði verklag um skipulegt frumkvæðiseftirlit ráðuneytisins með framkvæmd stjórnarmálefna á málefnasviði þess.

Úrbótum á lagaumgjörð og stjórnsýslu ráðuneytisins verður komið í framkvæmd með ferns konar hætti. Í fyrsta lagi með breytingum á þeirri löggjöf sem heyrir undir málefnasvið ráðuneytisins. Í öðru lagi með breytingum á þeim almennu stjórnvaldsfyrirmælum sem ráðuneytið setur og með setningu nýrra stjórnvaldsfyrirmæla. Í þriðja lagi með breytingum og setningu verklagsreglna og verkferla. Loks verður úrbótum á stjórnsýslu ráðuneytisins hrint í framkvæmd með aðgerðum sem lúta að mannauði ráðuneytisins.

Úttektina má finna hér.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta