Ísland hefur frumkvæði að sprengjueyðingarverkefni í Úkraínu
Ísland stendur ásamt hinum norrænu ríkjunum fyrir verkefni sem er fyrirhugað á sviði þjálfunar í sprengjuleit og sprengjueyðingu í Úkraínu. Líklegt er að fleiri lönd muni taka þátt í verkefninu þegar fram í sækir. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra kynnti verkefnatillögu þess efnis á ráðstefnu um stuðning við öryggi og varnir Úkraínu í Kaupmannahöfn í dag.
Markmið ráðstefnunnar Copenhagen Conference for Northern European Defence Allies of Ukraine sem fram fór í dag var að styrkja samstarf og samráð um hvernig best megi styðja Úkraínu í stríðinu gegn Rússlandi. Áhersla er á viðbótarstuðning til lengri tíma litið, einkum framlög sem styðja við hernaðarlega getu úkraínsku þjóðarinnar til varnar innrás Rússa, fjárframlög, þjálfun hermanna og sprengjueyðingu.
Á fundinum kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tillögu að verkefni á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar í Úkraínu. Það felur annars vegar í sér að veita úkraínskum sprengjusérfræðingum þjálfun á þessu sviði og hins vegar að sjá þeim fyrir nauðsynlegum búnaði. Öll norrænu ríkin hafa lýst yfir áhuga á að taka þátt í verkefninu sem er í samræmi við þarfir Úkraínu á þessu sviði. Þá skoða fleiri ríki þátttöku.
„Ég tel ákaflega mikilvægt að Ísland haldi áfram að leita allra leiða til þess að styðja við úkraínsku þjóðina. Við getum ekki stutt við hernaðarmátt Úkraínu en við viljum finna allar þær leiðir sem mögulegar eru til þess að leggja okkar af mörkunum til þess að hjálpa þeim að verja sig gegn árás Rússa og byggja upp samfélagið eftir að sigur hefur unnist og friði komið á. Verkefnið sem við kynntum í dag hefur sérstaka þýðingu fyrir almenna borgara í Úkraínu. Talið er að ósprungnar sprengjur af ýmsu tagi, þar á meðal jarðsprengjur, sé að finna á allt að fimmtungi úkraínsks landssvæðis. Þær geta legið í jörðu árum saman og sprungið þegar minnst varir, löngu eftir að stríðátökum lýkur eða víglínur færst til. Þetta framlag stuðlar því að björgun mannslífa,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Landhelgisgæsla Íslands hefur tekið þátt í viðræðum og undirbúningi verkefnisins en sprengjusérfræðingar á hennar vegum hafa á undanförnum árum sinnt verkefnum á vegum Atlantshafsbandalagsins á sviði þjálfunar sprengjusérfræðinga, meðal annars í Írak og Jórdaníu.
Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði ráðstefnuna. Í ræðu sinni minnti hann á að það hafi verið á Norðurlöndum sem fyrst komst upp um geislavirka mengun vegna Tsjernóbýlslyssins og það hafi gerst meðan sovésk stjórnvöld reyndu enn að hylma yfir atburðinn. Setti hann þetta í samhengi við þá hættu sem nú er í kringum stærsta kjarnorkuver Evrópu í borginni Zaporizhzhia. Þá ræddi hann um mikilvægi fjárstuðnings við daglegan rekstur innviða í Úkraínu, þar á meðal skóla. Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, ávarpaði einnig ráðstefnuna og lagði áherslu á að árás Rússa á Úkraínu væri árás á þau sameiginlegu gildi sem evrópsk samfélög byggja velferð sína á.
Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, var gestgjafi fundarins ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands og Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu. Auk þeirra sóttu ráðstefnuna fulltrúar Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna, Hollands, Póllands, Þýskalands, Tékklands, Slóvakíu, Slóveníu, Bandaríkjanna, Atlantshafsbandalagsins, Evrópursambandsins, Kanada, Ástralíu, Nýja Sjálandi, Georgíu, Rúmeníu og Japans.