Faggildingar á Íslandi - Opinn kynningarfundur
Menningar- og viðskiptaráðuneytið og faggildingarsvið Hugverkastofunnar í samvinnu við Samtök verslunar- og þjónustu og Samtök iðnaðarins bjóða til opins kynningarfundar um málefni faggildingar á Íslandi. Fundurinn verður haldinn fimmtudaginn 25. ágúst kl. 10-12 á 1. hæð í Húsi atvinnulífsins í Borgartúni 35.
Á fundinum mun Ulf Hammarström, forstjóri sænsku faggildingarstofunnar SWEDAC, fjalla um hlutverk faggildingar í Svíþjóð og hvernig faggilding nýtist þar í starfi sænskra stjórnvalda ásamt því að taka þátt í umræðum gesta.
- Faggilding er formleg viðurkenning stjórnvalds á því að tiltekinn aðili sé hæfur til að vinna tiltekin verkefni varðandi samræmismat á framleiðslu vöru eða þjónustu. Með faggildingu er þannig tryggt að aðilar sem framleiða vörur eða þjónustu í samræmi við tilteknar opinberar kröfur eða tiltekna staðla geti fengið framleiðslu sína vottaða og þannig tryggingu fyrir því að framleiðslan uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til hennar.
- Í opnu nútíma hagkerfi er faggilding lykill að því að tryggja opin og frjáls alþjóðleg viðskipti með vottun á framleiðslu. Faggilding getur þannig auðveldar íslenskum framleiðslufyrirtækjum aðgang að erlendum mörkuðum. Faggilding getur einnig nýst við annað opinber eftirlit, svo sem bifreiðaskoðun, og mikil tækifæri eru til að auka notkun faggildingar við framkvæmd opinbers eftirlits.
- Stjórnvöld hafa á undanförnum árum unnið að því að efla faggildingarstarfsemi hér á landi m.a. með því að tryggja að faggildingarsvið Hugverkastofunnar uppfylli viðeigandi kröfur í Evrópureglum með framkvæmd jafningjamats. Jafningjamat tryggir að faggildingar framkvæmdar hér á landi af faggildingarsviði Hugverkastofunnar verði viðurkenndar á EES-svæðinu. Hluti af þeirri vinnu er að endurnýja samstarfssamning milli ISAC og SWEDAC, en samningurinn verður undirritaður sama dag. Með samningnum er ISAC kleift að nálgast faglegan og tæknilegan stuðning við framkvæmd faggildingar hjá einni af stærstu faggildingarstofum í Evrópu.
Fundinum verður einnig streymt og hægt verður að nálgast upptöku af fundinum á vef ráðuneytisins, faggildingarsviði Hugverkastofu, SVÞ og SI.