Ráðuneytisstjóraskipti í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
Stefán Guðmundsson, viðskiptafræðingur hefur verið skipaður ráðuneytisstjóri umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins af Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og lofslagsráðherra. Stefán tekur við embættinu 1. september nk. þegar Sigríður Auður Arnardóttir ráðuneytisstjóri fer til starfa hjá Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem hún mun stýra nýju sviði Samhæfingar og stjórnsýslu hjá fyrirtækinu.
Stefán hefur gegnt embætti skrifstofustjóra á skrifstofu fjármála og rekstrar í ráðuneytinu frá árinu 2014. Stefán er fluttur í embætti ráðuneytisstjóra á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli embætta.
Stefán er menntaður viðskiptafræðingur með kandídatspróf í stjórnun frá Háskóla Íslands. Hann starfaði áður sem forstöðumaður rekstrar- og mannauðssviðs Matvælastofnunar, áður Landbúnaðarstofnunar, frá árinu 2006 til 2014.
Stefán býr yfir mikilli reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu og af störfum í atvinnulífinu.
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið vill við þessi tímamót þakka Sigríði Auði fyrir afar vel unnin störf og ekki síst hennar framlag í tengslum við uppbyggingu ráðuneytisins á tímum þar sem mikilvægi málaflokka ráðuneytisins hafa aukist verulega. Sigríður Auður hefur gegnt embætti ráðuneytisstjóra frá árinu 2014 en hún hóf störf í ráðuneytinu 1998.