Utanríksráðherrar Íslands og Þýskalands funduðu í Berlín
Samskipti Íslands og Þýskalands, innrás Rússlands í Úkraínu og orku- og loftslagsmál voru helstu umfjöllunarefnin á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Önnulenu Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, í Berlín í dag. Ríkin tvö fagna sjötíu ára stjórnmálasambandsafmæli um þessar mundir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er í vinnuheimsókn í Berlín í tilefni af því að sjötíu ár eru liðin frá því að Ísland og Þýskaland tóku upp stjórnmálasamband. Þær Annalena Baerbock utanríkisráðherra Þýskalands hittust í morgun á sínum fyrsta tvíhliða fundi síðan þær tóku við embættum sínum í desember sl. Tvíhliða samskipti Íslands og Þýskalands voru efst á baugi á fundinum, bæði hvað varðar stjórnmál og viðskipti en líka á sviði lista og menningar. Þá ræddu ráðherrarnir um mikilvægi þess að standa vörð um hið alþjóðlega kerfi sem byggist á alþjóðalögum, venjum og virðingu fyrir fullveldi og landamærum ríkja.
„Það er ánægjulegt að koma til Berlínar og treysta þau sterku bönd sem tengja þjóðirnar tvær. Þýskaland er mikilvægt forysturíki í Evrópu og það er til mikils að vinna að efla enn frekar sambandið við þessa vinaþjóð enda eru tækifærin til þess fjölmörg á ýmsum sviðum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Ráðherrarnir ræddu ítarlega um afleiðingar innrásar Rússlands í Úkraínu og áhrif hennar á öryggismál í Evrópu. Voru þær einhuga um nauðsyn algerrar samstöðu með úkraínsku þjóðinni og að draga yrði rússnesk stjórnvöld til ábyrgðar fyrir að þverbrjóta alþjóðalög.
„Á fundinum vorum við algerlega sammála um að styðja yrði Úkraínu með ráðum og dáð til að koma í veg fyrir að Rússar næðu markmiðum sínum. Í húfi væru fullveldi, sjálfsákvörðunarréttur, virðing fyrir alþjóðalögum og önnur grundvallargildi sem bæði Ísland og Þýskaland hafa í hávegum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Orkumál og loftslagsmál voru jafnframt til umræðu á fundi þeirra Baerbock. Mikill áhugi er á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa í Þýskalandi og hafa þarlend stjórnvöld lýst yfir áhuga á auknu samstarfi á því sviði. Þá voru málefni norðurslóða til umfjöllunar.
Ráðherrarnir ræddu við blaðamenn að fundi loknum. Að því búnu átti Þórdís Kolbrún fund með hugveitunni International Institute for Strategic Studies um utanríkis- og öryggismál í Evrópu og víðar.
Í kvöld verður Þórdís Kolbrún heiðursgestur í móttöku í sendiherrabústað Íslands í tilefni af stjórnmálasambandsafmælinu. Heimsókn utanríkisráðherra til Þýskalands lýkur á morgun.