Paola Cardenas nýr formaður innflytjendaráðs
Paola Cardenas er nýr formaður innflytjendaráðs. Hún er skipuð af Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
Paola er sálfræðingur, fjölskyldufræðingur og doktorsnemi í sálfræði við Háskólann í Reykjavík. Hún hefur um árabil starfað í Barnahúsi, auk þess að hafa unnið hjá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Rauða krossi Íslands og á barna- og unglingageðdeild Landspítalans. Enn fremur er Paola barnabókarithöfundur.
Aðrir fulltrúar í innflytjendaráði eru Daniel E. Arnarsson, varaformaður, Gunnlaugur Geirsson, Leifur Ingi Eysteinsson, Donata H. Bukowska, Joanna Marcinkowska og Anna Guðrún Björnsdóttir. Áshildur Linnet, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, er starfsmaður ráðsins.
Hlutverk innflytjendaráðs er meðal annars að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og hafa eftirlit með framkvæmd hennar, stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar og beita sér fyrir opnum umræðum um málefni innflytjenda.