Ráðherra vill aukið samstarf Íslands og Grænlands
Áhrif loftslagsbreytinga eru óvíða sýnilegri en á Norðurslóðum og þær breytingar sem þar eiga sér stað eru engum óviðkomandi. Þetta kom fram í máli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á Hringborði Norðurslóða í Nuuk nú um helgina.
Guðlaugur Þór sagðist vilja sjá aukið samstarf milli Íslands og Grænlands og annarra Norðurslóðaríkja í loftslagsmálum, þrátt fyrir þann skugga sem innrás Rússa í Úkraínu hafi í haft í för með sér fyrir starfsemi Norðurskautsráðsins.
Ráðherra nefndi að bæði Ísland og Grænland hafi hætt olíuleit. Ísland hafi sýnt aukinn metnað í loftslagsmálum með því að stefna á 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030. Grænland og Ísland og íbúar á Norðurslóðum almennt ættu lítinn hlut í losun og gætu því ekki stöðvað ein og sjálf hina öru hlýnun þar og afleiðingar hennar, s.s. hopun hafíss og bráðnun jökla. Norðurskautsríki gætu þó sýnt ábyrgð og fordæmi og verið í fararbroddi í aðgerðum gegn loftslagsvánni.
Guðlaugur Þór minnti á að í starfi sínu sem utanríkisráðherra hafi hann lagt mikla áherslu á að styrkja samskipti Íslands og Grænlands, m.a. með gerð skýrslunnar Greenland Iceland in the Arctic þar sem lagðar eru fram 99 tillögur að bættum samskiptum á ýmsum sviðum hins opinbera, einkafyrirtækja og félagasamtaka. Skýrsluna hafi hann m.a. kynnt Steen Lynge, þáverandi utanríkis- og orkumálaráðherra Grænlands. Hann vonaðist til að á grunni tillagna hennar væri hægt að efla enn samskipti landanna tveggja, sem væru góð og byðu upp á mikil tækifæri.
„Ég sé mikla mögulega fyrir Grænland og Ísland varðandi þróun á bláu hagkerfi, sem og í málefnum hreinnar orku og vistvænnar ferðamennsku. Þetta eru svið þar sem ég tel báðar þjóðir geta hagnast á auknu samstarfi og upplýsingaflæði,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra.