Utanríkisráðherra á ráðstefnunni Bled Strategic Forum
Tvíhliða samskipti og öryggismál í Evrópu í skugga innrásar Rússlands í Úkraínu voru efst á baugi á fundum Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands til Slóveníu. Hún hitti meðal annars utanríkisráðherra Spánar, Slóveníu og Kósovó í heimsókninni og tók þátt í alþjóðlegri ráðstefnu um áskoranir í stjórnmálum og öryggismálum.
Tveggja daga opinberri heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands, ásamt fylgdarliði, til Slóveníu lauk í dag. Á meðan henni stóð tóku þau Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra þátt í ráðstefnunni Bled Strategic Forum sem slóvensk stjórnvöld standa árlega fyrir. Þar koma saman stjórnmálamenn og sérfræðingar á ýmsum sviðum og ræða áskoranir í stjórnmálum og öryggismálum bæði samtímans og framtíðar. Á ráðstefnunni tók Þórdís Kolbrún þátt í pallborðsumræðum undir yfirskriftinni „How many Europes in Europe“ ásamt utanríkisráðherrum Frakklands, Slóveníu, Póllands, Tyrklands, Austurríkis og Portúgals.
Í gær tók utanríkisráðherra ásamt öðrum í íslensku sendinefndinni þátt í ýmsum dagskrárliðum heimsóknarinnar, þar á meðal viðræðum sem forseti Íslands leiddi ásamt Borut Pahor forseta Slóveníu.
Þá átti Þórdís Kolbrún óformlegan fund með Tönju Fajon utanríkisráðherra Slóveníu þar sem tvíhliða samskipti ríkjanna og ástand og horfur í alþjóðamálum voru helstu umræðuefnin.
„Ísland og Slóvenía er bæði smá lönd í alþjóðlegu samhengi og eiga bæði mikið undir því að standa vörð um alþjóðalög og kerfi fjölþjóðlegra stofnana og samninga þar sem staða ríkja ræðst ekki af aflinu heldur málstað og rétti. Þá eiga ríkin ýmsa sameiginlega hagsmuni og fjölmörg tækifæri eru í auknum samskiptum, til dæmis á sviði jarðvarmanýtingar og matvælatækni. Ég er þess fullviss að með þessari ánægjulegu heimsókn höfum við lagt góðan grunn að því að styrkja samband landanna enn frekar til framtíðar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Til viðbótar við þátttöku í Bled Strategic Forum-ráðstefnunni í dag átti utanríkisráðherra tvíhliða fundi með annars vegar José Manuel Albares, utanríkisráðherra Spánar og hins vegar Doniku Gërvalla-Schwarz, utanríkisráðherra Kósovó. Þá hittust þau Michael Roth formaður utanríkismálanefndar þýska sambandsþingsins, á fundi síðdegis. Tvíhliða samskipti, alþjóðamál og ýmis sameiginleg hagsmunamál voru til umræðu á öllum fundunum.