Breytingar á reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða
Breytingar hafa verið gerðar á reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða nr. 55/2013 sem tóku gildi 1. september 2022.
Heiti reglugerðarinnar er nú Reglugerð um könnun hjónavígsluskilyrða og viðurkenningu á hjónavígslu sem farið hefur fram erlendis. Með breytingum á reglugerðinni er í fyrsta lagi verið að fela embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum að annast könnun á hjónavígsluskilyrðum skv. 1. mgr. 14. gr. hjúskaparlaga og viðurkenningu á hjónavígslu skv. 25. gr. a hjúskaparlaga á landsvísu. Þá er tekið fram í reglugerðinni að heimilt verði að taka gjald fyrir útgáfu könnunarvottorðs í samræmi við breytingar sem gerðar voru á hjúskaparlögum nr. 31/1993 og breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs nr. 88/1991.
Í reglugerðinni kemur fram að hjónaefni geti lagt fram erindi hjá öðru sýslumannsembætti en því sem kannar hjónavígsluskilyrði sem skal þá framsenda gögnin til þess embættis sem annast könnun á hjónavígsluskilyrðum. Í samræmi við breytingar á hjúskaparlögum sem samþykktar voru á Alþingi þann 9. júní sl. er einnig lagt til að könnunarmanni verði heimilt að afla upplýsinga eða gagna samkvæmt 1. mgr. hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum með rafrænum hætti. Framangreindum aðilum beri að veita könnunarmanni rafrænan aðgang að umbeðnum upplýsingum eða gögnum búi þeir yfir þeim. Afli könnunarmaður nauðsynlegra upplýsinga eða gagna við könnun hjónavígsluskilyrða með rafrænum hætti hjá Þjóðskrá Íslands, sýslumönnum og dómstólum beri honum að upplýsa hjónaefni um fyrirhugaða upplýsingaöflun í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.
Reglugerðinni var jafnframt breytt til samræmis við breytingu á hjúskaparlögum um afnám undanþágu frá því að ráðuneytið geti veitt einstaklingum yngri en 18 ára leyfi til þess að ganga í hjúskap. Enn aðrar breytingar á reglugerðinni tengjast því að verkefni voru færð frá ráðuneytinu til sýslumanna.
Samkvæmt nýju reglugerðinni má vottorð um hjúskaparstöðu frá Þjóðskrá Íslands eða sambærilegt vottorð frá erlendu yfirvaldi ekki vera eldra en tólf vikna, en var áður átta vikna. Í reglugerðinni er nú einnig áréttað að sendiráð hér á landi geti gefið út gögn fyrir hönd erlends ríkis. Jafnframt var fellt á brott skilyrði hjónaefna að upplýsa um fæðingarstað vegna könnunar á hjónavígsluskilyrðum og sýslumanni veitt heimild til þess að afhenda hjónavígsluskýrslu með rafrænum hætti. Að lokum voru gerðar orðalagsbreytingar í viðeigandi ákvæðum sem varða þau gögn sem leggja þarf fram vegna könnunar á hjónavígsluskilyrðum og einnig tekið fram að könnunarmaður meti hvort drengskaparvottorð hjónaefna og/eða erlends yfirvalds, þ.m.t. sendiráði þess ríkis sem fer með fyrirsvar gagnvart Íslandi, geti verið fullnægjandi ef ekki er unnt að leggja fram vottorð heimalands um hjúskaparstöðu, né könnunarvottorð eða sambærileg gögn frá heimalandi.
Sjá hér breytingar á reglugerð nr. 55/2013 um könnun hjónavígsluskilyrða