Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur flust til Vinnumálastofnunar
Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd hefur flust frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar. Breytingarnar tóku gildi 1. júlí sl.
Við færsluna fluttust 13 starfsmenn frá Útlendingastofnun yfir til Vinnumálastofnunar. Markmiðið með yfirfærslunni er að tryggja samfellu í veitingu þjónustu og að áfram sé til staðar þekking og reynsla í því sambandi. Innviðir Vinnumálastofnunar munu nýtast vel í verkefninu þar sem stofnunin hefur mikla reynslu af þjónustu við einstaklinga við ýmsar aðstæður, auk þess að vera leiðandi hvað varðar upplýsingatækni, fjármál, gagnagreiningu, vinnumiðlun og ráðgjöf.
Breytingarnar eru í samræmi við forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem tók gildi 1. febrúar 2022. Þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem áður heyrði undir dómsmálaráðuneytið, fluttist þá til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins.