Hoppa yfir valmynd
12. september 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Stjórnunar- og verndaráætlun Geysissvæðisins staðfest

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og  Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tóku þátt í athöfn við Geysi í dag, þar sem umhverfis-, orku- og loftslagráðherra staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun Geysissvæðisins.

Geysissvæðið í Haukadal var friðlýst 17. júní árið 2020. Það er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar og er einstakt á heimsvísu, en friðlýsingin á að tryggja vernd jarðminja, örvera og gróðurs. Geysissvæðið nýtist jafnframt til vísindarannsókna og fræðslu, ásamt því að bjóða upp á möguleika til útivistar og ferðaþjónustu, en í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins er m.a. fjallað um fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna.

Er stjórnunar- og verndaráætlun eins konar leiðarljós fyrir þá aðila sem stýra svæðinu, sem og þá sem vilja vera þar með starfsemi eða þurfa samþykki fyrir aðgerðum og viðburðum.

Fjölmargir hverir og laugar eru á Geysissvæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði, sem og yfir 125 tegundir háplantna og yfir 20 mosategundir. Á svæðinu eru einnig þekktar menningarminjar, en við síðustu ríkisstjórnarskipti fluttist málaflokkur menningarminja til umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins. Eru konungssteinarnir þrír sem reistir voru til minja um heimsóknir þeirra Kristjáns IX árið 1874, Friðriks VIII árið 1907 og Kristjáns X árið 1921 þeirra þekktastar.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra: „Friðlýsing Geysisvæðisins var mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi, enda er svæðið einstakt og náttúran stórbrotin. Verndaráætlunin sem er staðfest í dag tryggir að komandi kynslóðir fái að njóta svæðisins eins og við fáum a gera í dag.“

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Í stjórnunar- og verndaráætluninni eru kynntar leiðir til að tryggja að markmið friðlýsingarinnar nái fram að ganga. Við uppbyggingu innviða á að taka tillit til deiliskipulags sem byggir á vinningstillögu „Hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal“ sem nú er unnið að fullnaðarhönnun á og á uppbygging innviða á svæðinu að leiða gesti um svæðið og tryggja að verndargildi þess haldist.“

 

 

  • Forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra ásamt oddvita og sveitastjóra Bláskógarbyggðar. - mynd
  • Forsætisráðherra og umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra undirrita stjórnunar- og verndaráætlun Geysisvæðisins ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta