Fjárlagafrumvarp 2023: Áframhaldandi vöxtur íslenskrar kvikmyndagerðar
Eitt af mikilvægustu verkefnum stjórnvalda er að skjóta fjölbreyttari stoðum undir íslenskt atvinnulíf og auka verðmætasköpun í hagkerfinu. Sérstök áhersla lögð á skapandi og hugvitsdrifnar greinar svo sem kvikmyndagerð í þeirri vegferð.
Með framsækinni kvikmyndastefnu til 2030 hafa stjórnvöld markað skýra sýn til að tryggja greininni bestu mögulegu aðstæður til að vaxa og dafna – enda hefur Ísland mannauðinn, náttúruna og innviðina til þess að vera framúrskarandi kvikmyndaland. Velta íslensks kvikmyndaiðnaðar nemur nú um 30 milljörðum króna á ársgrundvelli og vel á fjórða þúsund einstaklinga starfa við kvikmyndagerð.
Markviss fjárfesting er í framfylgd verkefna í kvikmyndastefnu næstu árin en nú þegar er stærsta verkefni stefnunnar komið til framkvæmda með nýsamþykktu frumvarpi um hækkun á endurgreiðsluhlutfalli fyrir stærri verkefni úr 25% í 35%. Gert er ráð fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar aukist verulega samhliða vexti greinarinnar.
Árin 2021 og 2022 fóru aukalega 412 milljónir króna, hvort ár um sig, í Kvikmyndasjóð auk 98 milljón króna viðbótarframlags til Kvikmyndamiðstöðvar vegna sérstaks tímabundins fjárfestingarátaks ríkisstjórnarinnar til að sporna við niðursveiflu í efnahagslífinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í sumar kynnti ríkisstjórnin breytingar á fjármálaáætlun til að vinna gegn þenslu og verðbólgu í hagkerfinu. Meðal aðgerða er endurskoðun fjárfestingaráforma, aðhald í ríkisútgjöldum eftir gríðarmikla aukningu undanfarin ár og frestun á hluta af nýju útgjaldasvigrúmi.
„Ég fylgist með íslenskri kvikmyndagerð vaxa dag frá degi og sé þá orku sem á sér stað innan greinarinnar. Það er ótrúlegt að fylgjast með uppbyggingunni, sjá hversu miklu hún skilar til menningarmála og til samfélagsins alls. Við höfum sannarlega staðið vörð um og lagt mikla áherslu á Kvikmyndaframleiðslu og munum gera það áfram, þrátt fyrir þessa tímabundnu frestun á fjárfestingarátakinu og þær aðhaldskröfur sem við erum öll að eiga við samkvæmt nýjum fjárlögum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Í fjárlagafrumvarpi næsta árs verður 500 milljóna króna framlagi af þeim eina milljarði sem ætlaður var í sérstakt tímabundið fjárfestingaátak, frestað til ársins 2024 og er það átak óútfært að sinni. Að öðru leyti var 2% aðhaldskröfu málefnasviðsins skipt hlutfallslega niður á stofnanir og verkefni málaflokksins. Framlög til Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs eru í takti við framlög fyrri ára þrátt fyrir fyrrgreinda aðhaldskröfu eins og sjá má hér fyrir neðan.
Þrátt fyrir aðhald og frestun hluta fjárfestingarátaks til ársins 2024 er unnið ötullega að framkvæmd kvikmyndastefnunnar sbr. væntanlegar breytingar á lögum um Kvikmyndasjóð. Áfram er stefnt að því að efla Kvikmyndasjóð í samræmi við áherslur í kvikmyndastefnu til 2030 og setja á fót nýjan sjóð fyrir sjónvarpsefni með frumvarpi um breytingu á kvikmyndalögum nr. 137/2001. Meginefni frumvarpsins byggir á tillögum í kvikmyndastefnu til ársins 2030 um fjárfestingarsjóð sjónvarpsefnis. Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á kvikmyndalögum, nr. 137/2001, og felur helsta breytingin í sér nýjan styrkjaflokk Kvikmyndasjóðs sem ætlað er að styrkja gerð viðamikilla leikinna sjónvarpsþáttaraða og munu styrkirnir fela í sér kröfu um endurheimt verði ákveðnum tekjuviðmiðum verkefnis náð.
Fjöldamörg verkefni eru á döfinni hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands t.d. ráðstefnur, kynning á aðgerðum er tengjast kvikmyndalæsi, vinnusmiðjur, mælaborð í samvinnu við fagfélög, áframhaldandi samstarf við fagfélög um bætt vinnuumhverfi og fleira.