Málþing um jafnlaunamál 16. september 2022
Alþjóðlega jafnlaunabandalagið (EPIC) stendur fyrir rafrænu málþingi um jafnlaunamál á morgun, föstudaginn 16. september, í tilefni alþjóðlega jafnlaunadagsins. Í ár verður sjónum beint að launagagnsæi en nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að launagagnsæi skiptir máli við að útrýma kynbundum launamun og draga úr öðru kynjamisrétti á vinnumarkaði.
Á málþinginu munu fulltrúar stjórnvalda, alþjóðasamtaka, launafólks og atvinnurekenda ræða mismunandi leiðir til að tryggja launagagnsæi og mikilvægi þess í baráttunni fyrir launajafnrétti og jafnrétti á vinnumarkaði.
Alþjóðlegi jafnlaunadagurinn er nú haldinn í þriðja sinn og er markmið hans að vekja athygli á aðgerðum sem stuðla að launajafnrétti og hvetja til frekari aðgerða til að markmið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga. Það var að frumkvæði Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt var tillaga um að halda slíkan jafnlaunadag árlega til að leggja áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu og samstarf allra aðila sem hafa með jafnlaunamál að gera.
Frekari upplýsingar og skráningarhlekkur á málþingið sem er öllum opið.