Marea hlýtur Bláskelina 2022
Sprotafyrirtækið Marea ehf. hlaut í dag Bláskelina, viðurkenningu umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins fyrir framúrskarandi plastlausa lausn og gott fordæmi. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, afhenti Julie Encausse, stofnanda og framkvæmdarstjóra Marea, viðurkenninguna á málþingi Plastlauss septembers í Veröld-húsi Vigdísar.
Marea var tilnefnt til Bláskeljarinnar fyrir þróun á náttúrulegri filmu úr þörungahrati sem ætluð er fyrir grænmeti og ávexti. Efninu er spreyjað á matvæli og myndast þá filma sem stjórnar raka á yfirborðinu og ver matvælin svo geymsluþolið eykst. Notkun filmunnar dregur því úr matarsóun án þess að plast komi við sögu. Filmuna má svo hreinlega borða með eða skola af matvælunum og því enginn óþarfa úrgangur sem verður til.
Fimm manna dómnefnd skipuð fulltrúum frá Umhverfisstofnun, Samtökum iðnaðarins, Sorpu, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti og Ungum umhverfissinnum valdi verðlaunahafann. Tveir aðrir aðilar komust í úrslit Bláskeljarinnar í ár, en það voru Krónan, fyrir að stuðla að hringrás plasts í sínum rekstri og fataleigan SPJARA, fyrir hönnun á margnota umbúðum úr afskurði frá Seglagerðinni og afgangstextíl frá Rauða krossinum.
„Kastljósið í baráttunni gegn plastmengun beinist að okkur öllum og enginn er stikkfrí. Þar þurfa ríki, sveitarfélög, atvinnulíf og almenningur öll að vinna saman ef árangur á að nást. Við þurfum að draga úr plastnotkun, flokka og endurvinna meira plast og hreinsa það plast sem er komið út í umhverfið. Þess vegna er sérlega ánægjulegt að veita Bláskelina fyrirtæki sem kemur með athyglisverða og nýstárlega lausn sem hjálpar okkur að draga úr plastnotkun,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis–, orku– og loftslagsráðherra.
„Það að fá hvatningu frá stofnunum sem eru á bak við Bláskelina og fagfólkinu sem tók þátt í dómnefndinni er afar þýðingarmikið og það segir okkur að við erum allavega að vinna í rétta átt,“ sagði Julie Encausse, stofnandi og framkvæmdastjóri Marea.
Bláskelin var nú veitt í fjórða sinn. Veiting verðlaunanna er í samræmi við aðgerðaáætlun stjórnvalda í plastmálefnum; Úr viðjum plastsins og er þeim ætlað að vekja athygli á nýsköpun í plastmálefnum og plastlausum lausnum.