Ísland leggur til fé í sjóð til stuðnings Úkraínu
Stuðningur við öryggi og varnir Úkraínu var í forgrunni fjarfundar varnarmálaráðherra 25 líkt þenkjandi ríkja sem fram fór í vikunni. Fulltrúar Atlantshafsbandalagsins, Evrópusambandsins og samhæfingarmiðstöðvar fyrir stuðning við Úkraínu sátu einnig fundinn.
Á fundinum var fylgt eftir ráðstefnu ráðherranna í Kaupmannahöfn 11. ágúst sl. þar sem kynntar voru tillögur að verkefnum til stuðnings Úkraínu. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra greindi frá eftirfylgni verkefnistillögu sem Ísland kynnti í ágúst sl. um þjálfun á sviði sprengjuleitar og sprengjueyðingar í Úkraínu, og tilkynnti að Ísland muni veita einni milljón sterlingspunda í alþjóðlegan styrktarsjóð fyrir varnir Úkraínu, sem bresk stjórnvöld hafa sett á fót.
„Töluverður árangur er að nást við endurheimt lands sem Rússland hefur sölsað undir sig. Þar er að sannast að stuðningur Vesturlanda við varnir Úkraínu gagnast ákaflega vel og það er mikilvægt að halda þeim stuðningi áfram. Því miður sjáum við stöðugt dæmi um hversu ill örlög það eru fyrir íbúa Úkraínu að lenda undir hernámsstjórn Rússa. Af þeim sökum er brýnt að við gerum okkar besta til þess að halda áfram stuðningi með þeim hætti sem okkur er mögulegt,“ segir Þórdís Kolbrún.
Markmið fundarins var að fylgja eftir þeirri vinnu sem ýtt var úr vör á síðasta fundi, og stilla saman strengi um næstu skref. Norðurlöndin og önnur ríki munu leggjast á eitt að þjálfa Úkraínumenn á sviði sprengjueyðingar og sprengjuleitar, og verður það gert í traustu samstarfi við samhæfingarmiðstöðina International Donor Coordination Centre, IDCC í Ramstein. Utanríkisráðherra segir aðkomu samhæfingarmiðstöðvarinnar þýðingarmikla til þess að forðast tvíverknað í ljósi þess hversu áríðandi stuðningur ríkjanna við Úkraínu væri.
Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, stýrði fundinum frá Kænugarði og Oleksii Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, ávarpaði fundinn ásamt Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands.