Rafræn skilríki verði aðgengilegri fyrir flóttafólk og innflytjendur
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt til samráðs í samráðsgátt drög að reglugerð um breytingartillögu þess efnis að dvalarleyfiskort útgefin af Útlendingastofnun verði bætt á lista yfir viðurkennd persónuskilríki við útgáfu rafrænna skilríkja.
Borið hefur á því að hópur fólks af erlendum uppruna geti ekki fengið rafræn skilríki útgefin hér á landi. Á þetta vandamál einkum við í tilviki tiltekins hóps innflytjenda, sérstaklega flóttafólks. Rót vandans er að til viðurkenndra persónuskilríkja, sem krafist er við útgáfu rafrænna skilríkja, teljast vegabréf, ökuskírteini og nafnskírteini gefin út af Þjóðskrá Íslands eða samsvarandi erlendum stjórnvöldum. Slík persónuskilríki eru tekin af flóttafólki við komu til landsins og því ómögulegt fyrir þann hóp fólks að nálgast rafræn skilríki. Þetta veldur verulegu óhagræði þar sem það getur reynst erfitt og jafnvel ógerlegt, að sækja sér ýmsa þjónustu án rafrænna skilríkja.
Til þess að leysa þennan vanda og koma til móts við flóttafólk og aðra innflytjendur á Íslandi hefur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra lagt fram breytingartillögu á reglugerð nr. 100/2020 um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti.
Er í drögunum lagt til að dvalarleyfiskort sem útgefin eru af Útlendingastofnun teljist til gildra persónuskilríkja vegna útgáfu rafrænna skilríkja. Slík skilríki eru aðeins gefin út að undangenginni ítarlegri skoðun á grundvelli reglna sem samræmdar eru innan Schengen svæðisins. Vonast er til þess að breyting þessi muni leiða til betra aðgengis fólks af erlendum uppruna að ýmissi þjónustu sem þeim býðst hér á landi.
Þá er lagt til að reglugerðin verði uppfærð með vísan til laga um rafræna auðkenningu og traustþjónustu fyrir rafræn viðskipti, nr. 55/2019, en þeim var breytt með lögum nr. 18/2021 um breytingu á lögum um Neytendastofu og fleiri lögum, og fer nú Fjarskiptastofa með framkvæmd eftirlits samkvæmt lögunum. Er því lagt til að reglugerðinni verði breytt til samræmis.
Umsagnarfrestur er til 17. október 2022.