Opið samráð um evrópska reglugerð um birtingu upplýsinga um losun gróðurhúsalofttegunda
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur hafið opið samráð um tillögu að nýrri reglugerð um það hvernig standa eigi skil á og birta upplýsingar um losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Frestur til að koma að athugasemdum og sjónarmiðum er til og með 17. október 2022.
Markmiðið með tillögunni er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í ferðum og flutningum. Það á að gera með því að skapa samræmda aðferð til að reikna út losun auk þess sem skapa á hvata til að draga úr losuninni og hafa áhrif á hegðun fólks. Eftirtalin atriði eru talin mikilvægust til að ná markmiðinu:
Samræmd framsetning og birting á losun gróðurhúsalofttegunda frá fyrirtækjum sem flytja farþega og vörur.
Áreiðanlegar upplýsingar um losun frá tilteknum tegundum af þjónustu.
Stuðlað að því að tekin verði upp reikningsskil í fyrirtækjum sem ná yfir losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum.