Alþjóðadagur táknmála: Menningar- og viðskiptaráðuneytið lýst upp
Í dag, föstudaginn 23. september, á alþjóðadegi táknmála standa Alheimssamtök döff fólks fyrir gjörningi sem nefnist Shine a Blue Light on Sign Languages- eða vörpum bláu ljósi á táknmál.
Af þessu tilefni tekur menningar- og viðskiptaráðuneytið þátt í gjörningnum og hefur varpað bláu ljósi á ráðuneytið. Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra mun gera slíkt hið sama.
„Á vordögum var tillaga til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls ásamt aðgerðaáætlun birt í samráðsgátt stjórnvalda. Málstefnan er fyrsta opinbera málstefnan um íslenskt táknmál sem mun vera stjórnvöldum leiðarljós við að tryggja réttinda döff fólks, ekki síst döff barna, og vinna í þágu íslensks táknmáls til að hlúa að þeim menningarverðmæta sem felast í tungumálinu,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sem flutti ávarp í tilefni dagsins.
Hér fyrir neðan má horfa á ávarpið, en í september ár hvert er haldin hátíðleg alþjóðavika döff en döff fólk er heyrnarlaust fólk sem talar táknmál og tilheyrir táknmálsmenningarsamfélagi.
Samkvæmt Alheimssamtökum döff eru döff um 70 milljónir og töluð eru yfir 200 táknmál í heiminum.
Íslenskt táknmál er eitt þessara mála en um 250-300 manns hafa íslenskt táknmál sem móðurmál en talið er að um 1000-1500 manns tali íslenskt táknmál. Íslenskt táknmál er eina hefðbundna minnihlutamálið á Íslandi en skv. lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls (nr. 61/2011) er íslenskt táknmál jafnrétthátt íslensku til tjáningar og samskipta.
Alþjóðavika döff var fyrst haldin árið 1958 en árið 2017 samþykktu 97 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna að alþjóðadagur táknmála yrði 23. september ár hvert. Í ályktun Sameinuðu þjóðanna vegna alþjóðadags táknmála er skýrt kveðið á um að snemmbúinn aðgangur að táknmáli og táknmálsumhverfi, þar með talið námsumhverfi á táknmáli, er grundvöllur fyrir vöxt og þroska döff einstaklinga.
Í ályktuninni er líka viðurkennt mikilvægi þess að varðveita táknmál sem hluta af mál- og menningarlegum fjölbreytileika hvers lands.