Stefnuræða Ursulu von der Leyen: Samstaða með Úkraínu, orkumál og hagvarnir
Að þessu sinni er fjallað um:
- stefnuræðu forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB),
- neyðarráðstafanir í orkumálum,
- leiðtogafundi í Evrópu í október,
- tillögu um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum,
- tillögu um útvíkkun á gildissviði reglugerðar um netöryggi,
- tillögu um bann á vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu,
- tillögu að nýrri löggjöf um frelsi fjölmiðla,
- tillögu að tilskipun um eftirlit með hættulegum varningi,
- fund landbúnaðarráðherra ESB,
- samráð um endurskoðun reglna um réttindi farþega,
- samráð um úthlutunarreglur fyrir afgreiðslutíma flugvéla,
- samráð um reglur fyrir útreikning og framsetningu upplýsinga um losun frá samgöngum,
- samráð um fyrirhugaðar breytingar á tilskipun um eftirlit með bifreiðum,
- heimsókn ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis til Brussel.
Stefnuræða forseta framkvæmdastjórnar ESB
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB flutti stefnuræðu sína fyrir komandi ár (e. State of the Union Speech) í Evrópuþinginu 14. september sl. Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu og áhrif þess voru nokkuð alltumlykjandi en í ræðunni lagði hún m.a. áherslu á eftirfarandi:
- Áframhaldandi einarðan stuðning við Úkraínu. ESB hafi frá upphafi innrásarinnar stutt Úkraínu með vopnum, fjárframlögum, móttöku flóttamanna og hörðustu þvingunaraðgerðum sem nokkurn tíma hafi verið beitt. Fram kom að samanlögð framlög ESB til Úkraínu nemi frá upphafi stríðsins 19 milljörðum evra og boðað að 100 milljónum evra verði að auki varið til enduruppbyggingar á skólum sem skemmst hafi í árásunum.
Von der Leyen boðaði ennfremur að hún vilji veita Úkraínu fullan aðgang (seamless access) að innri markaði Evrópu. Fram kom að Úkraína hafi þegar tengst orkuneti Evrópu og að öllum innflutningstollum hafi þegar verið létt af útflutningi frá Úkraínu til ESB. Jafnframt boðaði forsetinn að Úkraína yrði tengd ókeypis reikineti Evrópu en að öðru leyti var ekki tilgreint nánar hvernig aðild að innri markaðnum yrði útfærð. Ástæða er til að fylgjast með því áfram, einnig m.t.t. áhrifa þess á Evrópska efnahagssvæðið skv. EES-samningnum.
Athygli vakti að Von der Leyen boðaði ekki nýjar þvingunaraðgerðir þennan dag en lét nægja að árétta áhrif þegar ákveðinna aðgerða. Hún sagði þær þegar farnar að bíta harkalega og lagði áherslu á að þær væru komnar til að vera. Framkvæmdastjórnin var þó fljót að bregðast við eftir að Pútín tilkynnti um herkvaðningu varaliðsins í vikunni og umræða um tillögur hennar að 8. umferð aðgerða hófst í hópi fastafulltrúa aðildarríkjanna í morgun.
- Aðgerðir til að takast á við orkukreppuna. Sjá sérstaka umfjöllun um orkumálin hér á eftir.
- Auknar hagvarnir. Fram kom m.a. að tryggja þyrfti aðgengi að sjaldgæfum jarðmálmum og öðrum hráefnum sem nauðsynleg væru til framleiðslu algengra íhluta s.s. örgjörva og hálfleiðara og jafnvel matvæla. Boðaði forsetinn í því samhengi m.a. sérstaka lagasetningu um aðgengi að mikilvægri hrávöru innan sambandsins (e. European Critical Raw Materials Act).
- Stuðning við atvinnulífið. Í þessu samhengi vísaði forsetinn til áætlunar framkvæmdastjórnarinnar um samkeppnishæft rekstrarumhverfi til framtíðar. Fram kom að atvinnulífið væri að glíma við afleiðingar hækkandi verðbólgu og óvissu með aðföng. Brýnt væri að koma atvinnulífinu til aðstoðar og síst litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem væru hryggjarstykkið í evrópsku atvinnulífi. Sú aðstoð yrði kynnt í aðgerðaáætlun undir heitinu „SME Relief Package“ eða sérstakri aðgerðaáætlun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.Einn hluti hennar varðar samræmdar reglur um skattlagningu fyrirtækja í Evrópu eða BEFIT, „Business in Europe: Framework for Income Taxation“. Tillagan um BEFIT er ekki ný af nálinni heldur var hún fyrst kynnt á fyrri hluta þessa árs. Áhugavert verður að fylgjast með því hvernig málinu mun vinda fram næstu mánuði. Enda þótt skattamál séu ekki hluti af EES-samningnum með beinum hætti má ætla að breyttar skattareglur innan ESB kunni að kalla á endurskoðun á íslensku skattkerfi þannig að íslensk fyrirtæki búi við sambærilegar reglur og önnur fyrirtækji á innri markaði ESB/EES.
- Að ESB verði óháð jarðefnaeldsneyti frá Rússlandi. Fram kom m.a. að þess í stað verði tengsl og samstarf við áreiðanlega efld. Noregur var sérstaklega nefndur í því samhengi og haldið til haga að forsætisráðherra Noregs hafi fallist á að koma á fót starfshópi til að koma böndum á verðið.
- Fjárfest verði í endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar er vetnisframleiðsla efst á blaði og samstarf ríkja við Norðursjó og Eystrasaltið um virkjun vindorku til framleiðslu á grænu vetni lofuð sérstaklega. Forsetinn boðaði að komið verði á fót nýjum Vetnisbanka Evrópu og til hans varið 3 milljörðum evra til að byggja upp markaðinn og styðja við fjárfestingar í nýsköpun á þessu sviði.
- Forystu í aðlögun vegna loftlagsbreytinga og í náttúruvernd.
- Varðstöðu um lýðræði og réttarríki. Fram kom að í þessu skyni þyrfti m.a. að draga úr erlendum fjárfestingum sem geta haft áhrif á lýðræðislega þróun í Evrópu og auka samstarfið á milli lýðræðisríkja um allan heim. Augljós samhljómur er hér við áherslur Joe Bidens forseta Bandaríkjanna á þessu sviði.
- Endurskoðun fjármálareglna ESB (e. fiscal rules). Fjármálareglurnar eru að uppistöðu tvær og ganga undir samheitinu „Stability and Growth Pact“ (SGP) sem á íslensku má nefna sáttmáli um stöðugleika og hagvöxt. Fyrri reglan er að halli hins opinbera verði að vera undir 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og sú seinni að opinberar skuldir eða skuldahlutfallið sé undir 60% af VLF. Þessar reglur voru hins vegar teknar úr sambandi vegna þeirra opinberu aðgerða sem grípa þurfti til í kórónuveirufaraldrinum en gert hafði verið ráð fyrir að þær tækju gildi á ný frá og með árinu 2024. Staðreyndin er hins vegar sú að mörg aðildarríkjanna, einkum í sunnanverðri álfunni, eru langt frá því að uppfylla reglurnar í dag og munu vart ná að aðlaga sig settu marki á tilskildum tíma. Þannig hefur um nokkurn skeið legið fyrir að endurskoða þyrfti reglurnar og var sú umræða raunar komin af stað fyrir innrás Rússlands í Úkraínu og jafnframt fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Framkvæmdastjórn ESB stefnir að því að kynna fyrstu tillögu sína að endurskoðuðum fjármálareglum í október nk.
Hinar evrópsku fjármálareglur falla ekki undir EES-samninginn og gilda því ekki á Íslandi. Í lögum nr. 123/2015, um opinber fjármál, er kveðið á um sambærilegar fjármálareglur og lýst er að framan. Samkvæmt íslensku lögunum er afkomureglan sú að hallinn verði undir 2,5% af VLF og skuldahlutfallið ekki hærra en 30% á sama mælikvarða. Eins og kunnugt er gripu íslensk stjórnvöld til margvíslegra aðgerða, bæði sértækra og almennra, til að sporna gegn efnahagslegum áhrifum heimsfaraldursins. Þær leiddu til þess að hallinn á rekstri ríkissjóðs var um 8% af VLF árin 2020 og 2021 og skuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglunni fóru í 33,4% af VLF í árslok 2021. Jafnframt var útlit fyrir að skuldahlutfallið gæti orðið um og yfir 50% árið 2023. Þessi þróun kallaði á breytingar á lögum um opinber fjármál á árinu 2020 þar sem báðar reglurnar voru teknar úr sambandi og taka ekki aftur gildi fyrr en árið 2026 að óbreyttu.
- Að tími væri komin á Evrópuráðstefnu til endurskoðunar á sáttmálum ESB. Var möguleg boðun Evrópuráðstefnu sett í samhengi við kynslóðasáttmála annars vegar um allar ákvarðanir þyrfti að taka með hliðsjón af framtíð barna okkar og að slík grundvallarviðmið þyrftu að endurspeglast í sáttmálum ESB og hins vegar því að endurskoða þyrfti og bæta ákvörðunarferlið innan sambandsins sambandsins, en Von der Leyen hefur ekki dregið dul á að þörf sé á auka valdheimildir ráðsins þannig að aukinn meirihluti geti ákvarðanir á fleiri sviðum en nú er, þ. á m. í utanríkismálum.
Neyðarráðstafanir í orkumálum
Eins og vikið er að að framan fengu orkumálin sinn sess í stefnuræðu forseta framkvæmdastjórnar ESB. Ljóst er að áskoranir sem ríki ESB standa frammi fyrir vegna orkuskort og hækkandi orkuverðs eru miklar. Verkefni framkvæmdastjórnarinnar hefur verið koma fram með tillögur að ráðstöfunum sem aðildarríkin geta náð saman um og hrint í framkvæmd með skjótum hætti til að létta álagi af heimilum og fyrirtækjum. Í yfirlýsingu forseta framkvæmdastjórnarinnar, 7. september, sem greint var frá í Vaktinni, voru settar fram óformlegar tillögur sem í framhaldinu voru ræddar á fundi orkumálaráðherra ESB þann 9. september. Formlegar tillögur framkvæmdastjórnarinnar voru síðan kynntar í stefnuræðunni og eins og við var að búast eru tillögurnar áþekkar þeim sem áður voru höfðu verið kynntar. Tillögurnar eru eftirfarandi:
- Að dregið verði úr eftirspurn. 1) Með því að draga úr notkun raforku á álagstímum á komandi vetri um a.m.k. 5%. 2) Með því að aðildarríkin stefni að því að draga úr heildareftirspurn eftir raforku um að minnsta kosti 10% til 31. mars 2023.
- Að sett verði tímabundið tekjuþak á raforkuframleiðendur með skattlagningu og skatttekjurnar millifærðar til orkuneytanda í gegnum millifærslukerfi hvers aðildarríkis.
- Að kveðið verði á um tímabundið samstöðuframlag vegna umframhagnaðar sem myndast af starfsemi í olíu-, gas- og kolaiðnaði sem falla ekki undir tekjuhámarkið. Tekjur af framlaginu yrðu sömuleiðis millifærðar til orkuneytenda í gegnum millifærslukerfi hvers aðildarríkis.
- Að endurskoða og endurbæta ráðleggingar um úrræði til að bregðast við hækkandi orkuverði.
- Að veitt verði heimild til tímabundinnar ríkisaðstoðar til orkuveitufyrirtækja í formi aðgangs að lausafé og ábyrgða til takast á við markaðssveiflur og til að tryggja stöðugleika á markaði til framtíðar.
- Að lokum kom fram að til stæði að stofna svokallaðan Vetnisbanka og veita til hans þremur milljörðum evra en hlutverk hans verður að styðja við verkefni sem tengjast framleiðslu á vetni og stuðla þannig að myndun evrópsks vetnismarkaðar.
Enda þótt staða orkumála hafi versnað mjög frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst, hefur á vettvangi ESB um allnokkurt skeið verið unnið að úrræðum til að takast á við hækkandi raforkuverð og orkuskort. Samanber m.a. „Energy Prices Toolbox“ sem samþykkt var í október 2021. Aukið var við verkfærakistuna síðastliðið vor þegar tilkynnt var um heimildir til tímabundinnar markaðsíhlutunar og langtíma umbætur á raforkumarkaði. Áætlunin „REPowerEU“ sem framkvæmdastjórnin kynnti 18. maí sl. er jafnframt í fullu gildi og snýst um að draga úr eftirspurn, auka fjölbreytni orkugjafa og fjárfestingar í endurnýtanlegum orkugjöfum.
Orkumálaráðherrar ESB munu hittast á ný 30. september á vettvangi ráðherraráðs ESB til umræðna um framangreindar tillögur og ákvarðanatöku eftir atvikum.
Leiðtogafundir í Evrópu í október
Forseti leiðtogaráðs ESB og tékkneska formennskan hafa tekið höndum saman um að boða til leiðtogafundar 44ra Evrópuríkja í Prag 6. Október nk. Til hans hefur verið vísað sem European Political Community en þörf fyrir fund af þessu tagi var fyrst nefnd af Macron Frakklandsforseta þegar hann brást við skýrslu Ráðstefnunnar um framtíð Evrópu sl. vor. Auk allsherjarsamkomu (plenary) við upphaf og lok fundarins verður fer fundurinn fram á fjórum hringborðum helguðum eftirtöldum umræðuefnum: 1) Öryggi og stöðugleiki, 2) orka og loftslagsmál, 3) efnahagsmál og 4) fólksflutningum (mobility and migration). Auk leiðtoga ESB- og EFTA-ríkjanna eru ríki á Vestur-Balkanskaga, Tyrklandi, Georgíu, Moldóvu og Úkraínu á meðal þeirra sem boðið er til fundarins.
Í framhaldi af þessum fundi kom leiðtogar ESB saman til óformlegs fundar á sama stað 7. október og seinna í mánuðinum á formlegum fundi í Brussel 20. – 21. október.
Evrópumálaráðherrar ESB komu saman til fundar 20. september sl. á vettvangi allsherjarráðs ráðherraráðsins (e. General Affairs Council) m.a. til að undirbúa fund leiðtogaráðsins. Í framhaldi af fundinum voru birt drög að dagskrá leiðtogafundarins 20. – 21. október. Samkvæmt dagskrárdrögunum verða málefni Úkraínu, orkukreppan og staða efnahagsmála megin umfjöllunarefni fundarins eins og við mátti búast.
Tillaga um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum
Framkvæmdastjórn ESB kynnti í vikunni tillögu að löggjöf sem hefur það að markmiði að tryggja virkni innri markaðarins þegar neyðarástand steðjar að. Um er að ræða hið svokallaða Single Market Emergency Instrument (SMEI) en tillagan er kynnt í kjölfar þeirrar krísu sem innri markaðurinn stóð frammi fyrir vegna hamlana sem heimsfaraldur kórónuveiru leiddi af sér undanfarin tvö ár með tilheyrandi röskun á frjálsu flæði fólks, vöru og þjónustu. Tillögunni er þannig ætlað að tryggja að ríki innri markaðarins séu samstíga í viðbragði við neyðarástandi og að hægt verði að tryggja frjálst flæði fólks, vöru og þjónustu eftir fremsta megni við slíkar aðstæður, að aðfangakeðjur raskist ekki stórlega og að framboð og aðgangur sé að vörum og þjónustu sem mega teljast mikilvægar.
Tillagan gerir ráð fyrir að innan ramma SMEI verði komið á fót krísustjórnunarkerfi ríkja innri markaðarins sem ætlað er að leggja upp með virk samskipti og öfluga samhæfingu til að auka viðbragð við neyðarástandi. Við slíkar aðstæður muni sérstakur ráðgjafarhópur fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB og aðildarríkjanna koma saman og leggja mat á hættuna sem um ræðir og hvernig best sé að bregðast við.
Aukin heldur verði lagðar fram aðgerðir um hvernig megi fylgjast með aðfangakeðjum við slíkar aðstæður og tryggja betur frjálst flæði mikilvægra vara og þjónustu. Í neyðarástandi geti framkvæmdastjórnin óskað eftir upplýsingum og gefið út tilmæli um að auðvelda aðgengi að þessum skilgreindu mikilvægu vörum og þjónustu og að liðkað verði fyrir opinberum innkaupum í því skyni. Í mjög svo brýnum tilfellum geti framkvæmdastjórnin sent beiðni til rekstraraðila um upplýsingar og farið þess á leit við þá að þeir panti vörur sem metnar eru í forgangi þegar neyðarástand ríkir eða að þeir gefi öðrum kosti góðar og gildar ástæður fyrir því af hverju slíkri beiðni er hafnað.
Tillagan um SMEI-löggjöfina er á forgangslista íslenskra stjórnvalda um mál í hagsmunagæslu í EES-samstarfinu fyrir árin 2022-2023.
Sendiráðið mun fylgjast náið með framgangi tillögunnar sem verður næst tekin fyrir á vettvangi Evrópuþingsins og í ráðherraráði ESB.
Tillaga um útvíkkun á gildissviði reglugerðar um netöryggi
Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu um útvíkkun reglna um netöryggi (e. Cyber Resilience Act).
Núverandi Evrópureglur taka aðeins til tiltekinna nettengdra vara. Tillagan felur í sér að gerðar verða netöryggiskröfur við hönnun, þróun og framleiðslu á hvers kyns nettengdum vörum til sölu á innri markaði ESB.
Þá er m.a. í tillögunum kveðið á um tilkynningarskyldu framleiðenda nettengdra vara til að upplýsa um hvers kyns öryggisbresti.
Tillagan er hluti af áætlun ESB um að aðlaga sambandið að nýjum stafrænum tímum (e. A Europe fit for the digital age) en eftirfylgni með þeirri áætlun er meðal mála á forgangslista ríkisstjórnarinnar.
Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Tillaga um bann á vörum sem framleiddar eru með nauðungarvinnu
Í síðastliðinni viku birti framkvæmdastjórnin tillögu að nýrri reglugerð þar sem mælt er fyrir um að vörur sem eru framleiddar með nauðungarvinnu, að hluta eða öllu leyti, verði bannaðar á innri markaði ESB (e. Forced labour products ban).
Reglugerðinni er ætlað að styðja við eitt af meginmarkmiðum evrópsku réttindastoðarinnar sem er sanngjarn vinnumarkaður. The European Pillar of Social Rights Action Plan og er ætlað að styðja aðrar aðgerðir og stefnur framkvæmdastjórnarinnar á þessu sviði, s.s. stefnu ESB um réttindi barna, þar sem lagt er fortakslaust bann við nauðungarvinnu. Varðandi nauðungarvinnu er byggt á skilgreiningu alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar, en talið er að tæplega 27 milljónir manna séu í nauðungarvinnu á heimsvísu.
Gildissvið reglugerðarinnar er vítt og nær til allra vara hvort sem þær eru framleiddar innan ESB til neyslu innanlands eða til útflutnings og til innfluttra vara óháð því hvar þær eru framleiddar.
Yfirvöldum í hverju ríki fyrir sig, er falin framkvæmd og eftirfylgni reglugerðarinnar en gert er ráð fyrir því að settur verði upp gagnagrunnur með upplýsingum um líkleg nauðungarvinnusvæði eða vörur. Þá er gert ráð fyrir að stofnaður verði nýr vettvangur (EU Forced Labour Product Network) til að tryggja skipulagða samhæfingu og samvinnu milli þar til bærra yfirvalda í aðildarríkjunum og framkvæmdastjórnarinnar. Ennfremur hyggst framkvæmdastjórnin gefa út leiðbeiningar um hvernig fyrirtæki geti greint einkenni nauðungarvinnu í aðfangakeðjum sínum.
Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Tillaga að nýrri löggjöf um frelsi fjölmiðla
Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu að nýrri rammalöggjöf um frelsi fjölmiðla (e. European Media Freedom Act). Framlagning tillögunnar var boðuð í stefnuræðu forseta framkvæmdarstjórnarinnar árið 2021. Tillaga byggir meðal annars á skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um stöðu réttarríkisins í aðildarríkjum ESB sem fjallað hefur verið um í Vaktinni. Er nýjum reglum ætla að vernda margbreytileika og sjálfstæði fjölmiðla gegn pólitískum afskiptum og eftirliti. Þar sem starfræktir eru opinberir fjölmiðlar í almannaþágu er lögð áhersla á að tryggð sé stöðug fjármögnun þeirra. Að öðru leyti er lögð áhersla á gagnsæi eignarhalds fjölmiðla og ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir og upplýsa um hagsmunaárekstra. Er lögunum ætlað að auðvelda fjölmiðlum, bæði opinberum fjölmiðlum og fjölmiðlum í einkaeigu að starfa yfir landamæri á innri markaði ESB. Sérstaklega er kveðið á um vernd gegn notkun hverskyns njósnahugbúnaðar gegn fjölmiðlum, blaðamönnum þeirra og fjölskyldum.
Lagt er til að sett verði á fót ráðgefandi stjórn fyrir fjölmiðlaþjónustu á innri markaði ESB sem skipuð verði fulltrúum fjölmiðlayfirvalda í aðildarríkjunum. Hlutverk stjórnarinnar verður m.a. að stuðla að skilvirkri og samræmdri beitingu fjölmiðlalaga innan ramma laganna, einkum með því að aðstoða framkvæmdastjórn ESB við að útbúa leiðbeiningar og reglur. Gert er ráð fyrir að stjórnin muni einnig fá heimildir til að gefa álit á ráðstöfunum og ákvörðunum í aðildarríkjunum sem hafa áhrif á fjölmiðlamarkaði eða leiða til samþjöppunar á þeim markaði.
Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Tillaga að tilskipun um eftirlit með hættulegum varning
Framkvæmdastjórn ESB hefur birt tillögu að tilskipun um endurgerð (e. codification) löggjafar um eftirlit með flutningi á hættulegum varning. Framkvæmdastjórnin leggur áherslu á einfalda löggjöf sem er aðgengileg fyrir almenning svo einstaklingar og fyrirtæki eigi auðveldar með að lesa sig til um og gæta réttar síns. Hætt sé við að löggjöf verði óskýr og torlesin þegar henni hefur verið breytt mörgum sinnum og er það vinnuregla framkvæmdastjórnarinnar að hafi tilltekinni löggjöf verði breytt mörgum sinnum skuli skoða hvort megi einfalda hana.
Með nýrri tilskipun eru sameinaðar margar gerðir sem lúta að eftirliti með flutningi á hættulegum varning á vegum. Tillagan breytir ekki núverandi löggjöf að neinu marki efnislega heldur gerir hana einfaldari og aðgengilegri.
Tillagan gengur nú til umræðu og afgreiðslu í Evrópuþinginu og í ráðherraráði ESB.
Fundur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ESB
Fæðuöryggi og hlutverk evrópsks landbúnaðar og sjálfbær alþjóðleg matvælaframleiðsla voru meginumfjöllunarefni óformlegs fundar landbúnaðarráðherra ESB í Prag 14.-16. september. Fundinum var stýrt af tékkneska landbúnaðarráðherranum Zdeněk Nekula en auk landbúnaðarráðherra aðildarríkjanna sóttu fundinn Janusz Wojciechowski landbúnaðarmálastjóri ESB, fulltrúar frjálsra félagasamtaka og Evrópuþingsins, fræðimenn sem og landbúnaðarráðherrar Úkraínu, Georgíu og Moldavíu.
Innrás Rússa í Úkraínu sem og langvarandi áhrif heimsfaraldursins og sífellt auknar loftslagsbreytingar hafa dregið mjög úr fæðuöryggi í heiminum með tilheyrandi hækkun á heimsmarkaðsverði matvæla. Landbúnaðarráðherrar ræddu fyrst og fremst hvernig tryggja mætti næga matvælaframleiðslu og dreifingu til viðkvæmustu svæða heims, um leið og sjálfbærni væri tryggð. Ráðherrarnir voru sammála um að ESB þyrfti að bregðast við á samræmdan hátt til að hámarka sjálfbæra aukningu í landbúnaðarframleiðslu og flýta fyrir notkun tækninýjunga í landbúnaði.
Formlegur fundur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra ESB í ráðherraráðinu verður haldinn í Brussel 26. september þar sem framangreind mál verða til áframhaldandi umræðu.
Samráð um endurskoðun reglna um réttindi farþega
Framkvæmdastjórnin hefur auglýst samráð um fyrirhugaðar breytingar á reglum um réttindi farþega. Til skoðunar er að styrkja ákvæði um réttindi gagnvart langvarandi ferðaröskun að meðtaldri ferðaröskun fyrir ferðir sem ná yfir fleiri en einn samgöngumáta. Einnig eru til skoðunar leiðir til þess að verja farþega fyrir áhættu af fjárskorti vegna tafa við endurgreiðslu farmiða og ef þarf, aðstoð við að komast heim.
Samráðið er opið til 7. desember nk.
Samráð um úthlutunarreglur fyrir afgreiðslutíma flugvéla (e. slot)
Framkvæmdastjórnin hefur auglýst eftir upplýsingum, athugasemdum og ábendingum um úthlutunarreglur á afgreiðslutíma fyrir flugvélar. Tilgangur samráðsins er að afla upplýsinga um vandamál og mögulegar lausnir sem yrði til skoðunar við áhrifamat reglnanna.
Samráðið er opið til 21. nóvember nk.
Samráð um reglur fyrir útreikning og framsetningu upplýsinga um losun frá samgöngum
Framkvæmdastjórnin hefur auglýst samráð um samræmdar reglur fyrir útreikning og framsetningu upplýsinga um losun kolefnis frá samgöngum. Tilgangurinn er að tryggja gagnsæjar upplýsingar um losun sem eru hjálplegar fyrir þá sem veita samgönguþjónustu til þess að draga úr losun.
Samráðið er opið til 17. október nk.
Samráð um fyrirhugaðar breytingar á tilskipun um eftirlit með bifreiðum
Framkvæmdastjórnin hefur auglýst samráð um tilskipun um endurskoðað regluverk um eftirlit með bifreiðum.
Megin markmið tillögunnar eru þríþætt; auka umferðaröryggi; stuðla að sjálfbærum og snjöllum samgöngum; greiða fyrir og einfalda samgöngur fyrir fólk og vörur innan sambandsins. Miklar tækniframfarir hafa leitt til upptöku flókinnar tækni í bifreiðum.
Því þykir tilefni til að endurskoða aðferðafræði við bifreiðaskoðun, tryggja virkni aðstoðarkerfa fyrir ökumenn og sjálfvirknibúnaðar í ökutækjum.
Tilgangur með reglunum er enn fremur að tryggja virkni rafbúnaðar bifreiðar yfir líftíma hennar, framkvæma nauðsynlegar prófanir á rafbúnaði og tryggja varðveislu upplýsinga, aðgang og miðlun upplýsinga um ástand og virkni bifreiða á milli aðildarríkja sambandsins.
Samráðið er opið til 28. september nk.
Heimsókn ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis til Brussel
Ásdís Halla Bragadóttir, ráðuneytisstjóri háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, heimsótti í Brussel dagana 22. og 23. september. Erindi heimsóknarinnar var að funda með fulltrúum ESB og EFTA á málefnasviðum ráðuneytisins, auk þess að kynna sér starfsemi sendiráðsins.
Átti hún fundi með tveimur ráðuneytisstjórum hjá framkvæmdastjórninni annars vegar með Roberto Viola sem stýrir DG Connect („Communications Networks, Content and Technology“) og hins vegar með Signe Ratso sem stýrir DG Research („Research and Innovation“) ásamt því að heimsækja skrifstofu EFTA og ræða við stjórnendur þar.
Á fundi sínum með Roberto Viola var mikilvægi samstarfs við ESB um netöryggismál m.a. til umfjöllunar, en tillaga að nýrri reglugerð um aukið netöryggi hefur nú verið lögð fyrir Evrópuþingið og ráðið eins og gerð er grein fyrir hér að framan. Samhliða ræddu þau óskir EFTA ríkjanna um þátttöku í NIS-Cooperation Group, í netöryggisverkefnum samstarfsáætlana ESB og þátttöku í European Cybersecurity Competence Centre.
Á fundinum með Signe Ratso var fjallað um mikilvægi þátttöku Íslands í samstarfsáætlun Evrópusambandsins svo sem í verkefninu „Horizon Europe“ á sviði rannsókna og nýsköpunar. Ráðuneytisstjóri lagði áherslu á að þátttaka Íslands hafi opnað margar dyr fyrir íslenskum vísindamönnum og að mikill áhugi á þátttöku sé mikill.
Loks kynnti ráðuneytisstjórinn nýtt skipurit háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis og hugmyndafræðina að baki fyrir starfsmönnum sendiráðsins.
***
Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.
Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.
Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].