Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins 2022
Uppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins 2022 liggur fyrir. Uppgjörið í heild sinni er aðgengilegt á vef Fjársýslu ríkisins. Vegna breytinga á skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands í kjölfar Alþingiskosninga árið 2021 er uppgjörið hið fyrsta sem birt er á þessu ári.
Helstu niðurstöður eru:
- Afkoma fyrir fjármagnsliði var neikvæð um 83,7 ma.kr sem er 25,9 ma.kr. betri afkoma en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Á sama tímabili ári áður var afkoman neikvæð um 107,2 ma.kr.
- Þegar tekið hefur verið tillit til fjármagnsliða og afkomu hlutdeildarfélaga er afkoman neikvæð um 174,6 ma.kr. sem er 38,5 ma.kr. meiri halli en áætlað var. Lakari afkoma skýrist fyrst og fremst af óreglulegum liðum og verðbólgu, einkum af neikvæðri afkomu Seðlabanka Íslands og ÍL-sjóðs og hækkun lífeyrisskuldbindinga og lána vegna verðbóta.
- Afkoma tímabilsins aðlöguð að hagskýrslustaðlinum GFS var neikvæð um 98,3 ma.kr. Áætlun sama tímabils gerði ráð fyrir 122,6 ma.kr. neikvæðri afkomu. Afkoman var því 24,3 ma.kr. betri en áætlun gerði ráð fyrir. Framsetning og flokkun upplýsinga um fjármál skv. 1. gr. fjárlaga eru samkvæmt GFS (sjá nánar t.d. í viðauka við fjárlagafrumvarp 2023). Helstu aðlaganir eru:
- Afkoma tímabilsins skv. uppgjöri FJS -174,6 ma.kr.
- Arður frá félögum +29,0 ma.kr.
- Afkoma hlutdeildarfélaga +28,7 ma.kr.
- Laun, reiknuð breyting vegna lífeyrisskuldbindingar +24,4 ma.kr.
- Fjárfesting í rekstrarfjármunum og afskriftir -5,8 ma.kr
- Afkoma skv. GFS -98,3 ma.kr.
- Tekjur ríkissjóðs voru 455,9 ma.kr. og 13,4% hærri en á sama tímabili fyrra árs. Það er 36,5 ma.kr. eða 8,7% umfram áætlun fjárlaga 2022. Þar af var virðisaukaskattur 14,5 ma.kr. hærri, fjármagnstekjuskattur 5,4 ma.kr., tryggingagjöld 3,7 ma.kr. og erfðafjárskattur 2,7 ma.kr. umfram áætlun.
- Gjöld fyrir fjármagnsliði námu 539,6 ma.kr. sem er 2% yfir áætlun tímabilsins en var aukning um 5,2% milli ára.
- Fjármagnsjöfnuður tímabilsins var neikvæður um 62,2 ma.kr. sem er 31,6 ma.kr. neikvæð breyting frá 2021 að stórum hluta vegna verðbóta.
- Eignir ríkissjóðs námu í lok júní samtals 2.776 ma.kr, skuldir samtals námu 2.790 ma.kr. og eigið fé var neikvætt um 14 ma.kr.
- Fjárfestingar námu 17,2 ma.kr. en fjárfesting á sama tímabili síðasta árs var 18,7 ma.kr. Stærstu fjárfestingar tímabilsins voru hjá Vegagerðinni 8,3 ma.kr., vegna byggingar sjúkrahúss 4 ma.kr. og vegna byggingar hafrannsóknarskips 1 ma.kr.
Hagstofa Íslands hefur birt bráðabirgðauppgjör um opinber fjármál á fyrri helmingi ársins og er afkoma ríkissjóðs neikvæð um 94 ma.kr. Vert er að hafa í huga að Hagstofan birtir uppgjör fyrir A-hluta ríkissjóðs í heild, þ.e. að meðtöldum sjóðum og fyrirtækjum sem falla undir A2- og A3-hluta ríkissjóðs. Sundurliðun á tekjum ríkis og gjöldum í uppgjörinu niður á málefnasvið kemur fram í á vef Fjársýslu ríkisins.