Veitir Sorgarmiðstöðinni 5 milljóna króna styrk
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Sorgarmiðstöðinni styrk að upphæð fimm milljónum króna.
Styrkurinn er veittur til almennrar starfsemi Sorgarmiðstöðvarinnar sem felst meðal annars í þjónustu og stuðningi við syrgjendur í sorgarúrvinnslu. Slík sorgarúrvinnsla miðar að því að efla og styðja við andlega, líkamlega og félagslega heilsu fólks eftir ástvinamissi.
Sorgarmiðstöðin er öllum opin og hefur verið starfrækt frá árinu 2019. Að baki hennar lá sú hugmynd að syrgjendur og aðstandendur þeirra gætu gengið að upplýsingum og þjónustu á einum stað, með símtali, heimsókn eða á vefsíðu. Á vef samtakanna má finna hagnýtar upplýsingar og margvíslegt fræðsluefni, svo sem algengar spurningar um sorg, góð ráð fyrir aðstandendur og umfjöllun um sorg barna. Sorgarmiðstöðin hefur einnig beitt sér fyrir því að efla samfélagsumræðu um sorg og gekkst fyrir skemmstu fyrir ráðstefnu um skyndilegan missi.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
„Þjónusta Sorgarmiðstöðvarinnar er ómetanleg jafnt fyrir syrgjendur og aðstandendur þeirra enda fylgir því að missa fólkið sitt sorg og erfiðar tilfinningar. Það er því afar gagnlegt að geta leitað á einn stað með öll þau fjölmörgu atriði sem upp kunna að koma við sorgarúrvinnslu. Nýjum lögum um sorgarleyfi vegna barnsmissis sem voru samþykkt á Alþingi í júní og taka gildi í byrjun næsta árs er sömuleiðis ætlað að styðja við foreldra sem missa barn og gefa þeim svigrúm frá skyldum sínum á vinnumarkaði til að vinna úr sorginni.“
Ína Ólöf Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Sorgarmiðstöðvarinnar:
„Sorgarmiðstöð hefur undanfarin ár veitt syrgjendum, aðstandendum þeirra og fagfólki ráðgjöf og stuðning. Miðstöðin hefur haldið úti fjölbreyttri starfsemi en aðsóknin í hana hefur aukist verulega frá opnun Sorgarmiðstöðvar. Með þessum styrk gefst tækifæri á að halda áfram því góða starfi sem unnið er í Sorgarmistöð og bæta þjónustuna enn frekar fyrir syrgjendur á Íslandi. Við þökkum Guðmundi Inga Guðbrandsyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra innilega fyrir veittan stuðning með þessu framlagi.“