Ráðuneytisstjóri afhjúpar minnisvarða um samskipti Íslands og Eistlands
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, afhjúpaði á miðvikudag minnisvarða um samskipti Íslands og Eistlands í eistneska utanríkisráðuneytinu. Minnisvarðinn var settur upp í tilefni af því að þrír áratugir eru liðnir frá því að Ísland varð fyrst allra ríkja til að viðurkenna endurreisn sjálfstæðis Eistlands. Minnisvarðinn, sem ætlað er að standa í ráðuneytinu til frambúðar, sýnir ýmis skjöl, ljósmyndir og gögn sem tengjast viðurkenningunni. Þess má geta að eistneska utanríkisráðuneytið stendur við torg sem nefnt er eftir Íslandi vegna hlutverks Íslands við endurreisn sjálfstæðis Eistlands.
Ráðuneytisstjóri átti einnig fund Jonatan Vseviov, ráðuneytisstjóra eistneska utanríkisráðuneytisins, og fleiri embættismönnum þess í heimsókn sinni til Tallinn, þar sem tvíhliða samskipti ríkjanna, samstarf þeirra á alþjóðavettvangi og stríð Rússlands í Úkraínu voru meðal annars til umræðu. Að fundinum loknum tóku ráðuneytisstjórarnir tveir þátt í panelumræðum um hlutverk smáríkja á alþjóðavettvangi. Þá fundaði ráðuneytisstjóri með fulltrúum Öndvegisseturs Atlantshafsbandalagsins á sviði netöryggis og fékk kynningu á starfsemi setursins í Tallinn en þar starfar nú einn sérfræðingur á vegum íslenskra stjórnvalda. Þá heimsótti Martin herstöðina í Tapa og hitti fulltrúa Eista og Breta þar.