Ísland kosið í aðalráð Alþjóðaflugmálastofnunarinnar
Kosningar fóru fram í aðalráð Alþjóðaflugmálastofnunarinnar í Montréal, Kanada, fyrr í dag. Ísland var í framboði og hlaut kosningu. Sem fulltrúi Íslands mun Valdís Ásta Aðalsteindóttir, fyrst íslenskra kvenna, taka sæti í ráðinu og skipa eitt af 36 sætum aðalráðsins fram til næsta aðalþings, haustið 2025. Undanfarin þrjú ár hefur hún starfað sem varafulltrúi Finnlands í aðalráðinu.
Valdís Ásta mun jafnframt stýra starfi NORDICAO hjá Alþjóðaflugmálastofnuninni, sem er samstarf Norðurlandanna, Eistlands og Lettlands.
Varafulltrúi Íslands á tímabilinu verður Ditte Helene Bang frá Danmörku. Saman verða Valdís Ásta og Ditte Helene í fararbroddi fyrir hönd Norðurlandanna, Eistlands og Lettlands í alþjóðasamstarfi um vöxt og viðgang flugmála á vettvangi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar.
Sendinefnd Íslands á þinginu skipa m.a. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Jón Gunnar Jónsson forstjóri Samgöngustofu. Af hálfu íslensku fulltrúanna hefur áhersla verið lögð á mikilvægi alþjóðasamvinnu um flugmál, umhverfismál tengd flugi í ljósi fyrirætlana ríkja um að draga úr losun, vaxandi áherslu á netöryggi og gildi samvinnu og samhæfingar þjóða heimsins í þágu endurreisnar almannaflugs eftir heimsfaraldur.
Örugg og öflug flugstarfsemi er mikið hagsmunamál fyrir Ísland og styrk stoð hagsældar þjóðarinnar. Ísland stýrir einu af stærstu flugstjórnarsvæðum heims, um 5,4 milljón km2 og með hnattrænni staðsetningu gegnir landið mikilvægu hlutverki í flugtenginum milli heimsálfa. Ísland hefur verið aðildarríki að Alþjóðaflugmálastofnuninni ICAO frá stofnun hennar árið 1944, en alls 193 þjóðir eiga aðild að stofnuninni.