Grænbók um líffræðilega fjölbreytni sett til kynningar í Samráðsgátt
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett grænbók um líffræðilega fjölbreytni íslenskra vistkerfa til kynningar í Samráðsgátt stjórnvalda. Þar eru kynntar forsendur og hugmyndir fyrir nýja stefnumótun um aðgerðir til verndar líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi í samræmi við lög um náttúruvernd og Samning sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni (CBD).
Í grænbókinni eru gerð grein fyrir tengslum og áhrifaþáttum stefnu fyrir líffræðilega fjölbreytni við aðra alþjóðlega samninga, lög og stefnur hér á landi. Eru þar settar fram fjórtán áherslur til umræðu sem snúa að verndun og endurheimt tegunda og vistkerfa, líffræðilegri fjölbreytni í annarri stefnumörkun, ágengum framandi tegundum, þekkingu og mótun, innleiðingu og eftirfylgni stefnu. Fjallað er um stöðu líffræðilegrar fjölbreytni og helstu beinu og óbeinu þætti sem hafa áhrif á verndun og þróun hennar alþjóðlega og hér á landi. Einnig er fjallað um drög að markmiðum samningsins og stefnu, sem og valkosti, framtíðarsýn og áherslur við stefnumótun fyrir Ísland um líffræðilega fjölbreytni.
„Íslensk vistkerfi hafa sérstöðu og aðstæður á Íslandi eru um margt sérstakar á heimsvísu og endurspeglast það í fjölbreytni og samsetningu vistkerfa, bæði í sjó, á landi og í fersku vatni. Tilgangurinn með verndun líffræðilegrar fjölbreytni er að styrkja og varðveita til framtíðar þær tegundir sem hafa frá upphafi skapað íslenska náttúru og þrifist hér á landi í árþúsund og að koma í veg fyrir að tegundir deyi út af mannavöldum og hverfi um aldur og ævi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Markmið kynningarinnar nú er að fá ábendingar frá almenningi, félagasamtökum, fyrirtækjum, stofnunum, sveitarfélögum og ráðuneytum um stefnumótun fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Að loknu samráði verða niðurstöður grænbókarinnar dregnar saman og mótuð drög að stefnu í formi hvítbókar. Er það í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að ljúka eigi við endurskoðun á stefnu um líffræðilega fjölbreytni .
Ísland mótaði fyrstu stefnuna um líffræðilega fjölbreytni árið 2008 og framkvæmdaáætlun fyrir stefnuna var samþykkt af ríkisstjórn árið 2010, sama ár og Samningur um líffræðilega fjölbreytni samþykkti stefnu sína til ársins 2020. Vinna við endurnýjun stefnu samningsins fyrir heiminn er nú á lokametrunum og er gert ráð fyrir að endurnýjuð stefna verði samþykkt í desember á þessu ári.
Umsögnum skal skilað í samráðsgátt stjórnvalda og er frestur til þess til 25. október næstkomandi.