Framganga Rússlands gagnvart Úkraínu fordæmd
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, boðaði í gær Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússlands, á fund síðdegis í gær þar sem hann áréttaði fordæmingu Íslands á tilraunum Rússlands til að innlima úkraínskt landssvæði. Um ólöglegan gjörning væri að ræða sem Ísland viðurkenndi ekki undir neinum kringumstæðum. Þá brytu atkvæðagreiðslur sem haldnar voru í fjórum héruðum í austurhluta Úkraínu algerlega í bága við alþjóðalög. Þessi framganga, auk óábyrgra hótana um beitingu kjarnavopna, væru alvarlegasta stigmögnun átakanna frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar sl. Vladimír Pútín Rússlandsforseti bæri alla ábyrgð á þessu grimmilega árásarstríði og það væri undir honum komið að binda á það enda.
MFA Iceland summoned the Ambassador of Russia today to express the strongest condemnation of the attempted annexation of Ukrainian territory and the sham referenda engineered in total violation of international law. 🇮🇸 will not recognize any of this territory as a part of Russia.
— MFA Iceland 🇮🇸 (@MFAIceland) October 3, 2022
Þetta er í fimmta sinn á undanförnum mánuðum sem rússneski sendiherrann er boðaður til fundar í utanríkisráðuneytinu þar sem honum hefur verið gerð grein fyrir afstöðu Íslands og kynntar ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna framgöngu Rússlands gegn úkraínsku þjóðinni.