Hoppa yfir valmynd
4. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Framganga Rússlands gagnvart Úkraínu fordæmd

Íslensk stjórnvöld hafa komið formlega á framfæri við rússnesk stjórnvöld hörðum mótmælum við ólöglegri innlimun héraða í Úkraínu og marklausum atkvæðagreiðslna sem þar voru haldnar. Sendiherra Rússlands í Reykjavík var kallaður til fundar í utanríkisráðuneytinu af þessu tilefni í gær.

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, boðaði í gær Mikhaíl Noskov, sendiherra Rússlands, á fund síðdegis í gær þar sem hann áréttaði fordæmingu Íslands á tilraunum Rússlands til að innlima úkraínskt landssvæði. Um ólöglegan gjörning væri að ræða sem Ísland viðurkenndi ekki undir neinum kringumstæðum. Þá brytu atkvæðagreiðslur sem haldnar voru í fjórum héruðum í austurhluta Úkraínu algerlega í bága við alþjóðalög. Þessi framganga, auk óábyrgra hótana um beitingu kjarnavopna, væru alvarlegasta stigmögnun átakanna frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar sl. Vladimír Pútín Rússlandsforseti bæri alla ábyrgð á þessu grimmilega árásarstríði og það væri undir honum komið að binda á það enda.


Þetta er í fimmta sinn á undanförnum mánuðum sem rússneski sendiherrann er boðaður til fundar í utanríkisráðuneytinu  þar sem honum hefur verið gerð grein fyrir afstöðu Íslands og kynntar ráðstafanir sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til vegna framgöngu Rússlands gegn úkraínsku þjóðinni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta