Ísland meðal efstu þjóða samkvæmt vísitölu félagslegra framfara
Samtökin Social Progress Imperative birtu þann 26. september sl. vísitölu félagslegra framfara (Social Progress Index) fyrir árið 2022. Ísland mælist í 5. sæti með 89,54 stig af 100 mögulegum og raðast ásamt hinum Norðurlöndunum í efstu sæti lista 169 landa. Staða Íslands á listanum helst nokkuð stöðug frá fyrra ári en vísitalan samanstendur einungis af félagslegum og umhverfislegum þáttum sem taldir eru mikilvægir fyrir framþróun og velgengni þjóða og er þannig hugsuð sem mótvægi við hagræna mælikvarða eins og verga landsframleiðslu.
Vísitala félagslegra framfara er birt árlega og mælir árangur ríkja heimsins út frá þremur grunnstoðum félagslegra framfara. Sú fyrsta er grunnþarfir (basic human rights) eins og næring, vatn og hreinlæti, húsaskjól og öryggi. Önnur mælir undirstöður lífsgæða (foundations of wellbeing), þ.á m. aðgengi að upplýsingum, heilbrigði og umhverfisgæði og sú þriðja tækifæri (opportunity) m.t.t. réttinda, frelsis, aðgreiningar og aðgengi að menntun. Ísland fær í ár flest stig fyrir mælingar sem snúa að aðgengi að grunnþekkingu, vatnsgæðum, persónuréttindum, aðgengi að góðri næringu og læknisþjónustu og aðgengi að upplýsingum.
Í tilkynningu Social Progress Imperative um niðurstöðurnar er varað við hættumerkjum um að heimurinn muni í fyrsta sinn frá upphafi mælinga árið 2011 sjá fram á félagslega afturför á næsta ári. Þó að heilt á litið hafi orðið félagslegar framfarir á heimsvísu á undanförnum árum hefur hægt verulega á þeim og er helsta ástæða þess er talin vera sú að dregið hefur úr persónuréttindum fólks í kjölfar Covid-19 faraldursins og einnig vegna loftslagsbreytinga, ólgu í hagkerfinu og breytinga á pólitíska sviðinu.
Unnið er að stofnun verkefnastofunnar Sjálfbært Ísland, en eitt af verkefnum hennar verður að virkja mælikvarða um sjálfbæra þróun, þ.á m. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og Velsældarvísa sem Hagstofa Íslands birtir í samstarfi við forsætisráðuneytið. Hluti af því starfi verður að nýta sem best þá mælikvarða sem gagnlegir eru og áreiðanlegir teljast í því skyni að ná jafnvægi í mælingum á framförum á sviði efnahags, umhverfis og samfélags.