Heilbrigðisstofnun Austurlands tryggt nýtt tölvusneiðmyndatæki
Heilbrigðisráðherra hefur veitt Heilbrigðisstofnun Austurlands 80 milljónir króna til kaupa á nýju tölvusneiðmyndatæki. Tækið mun auka öryggi við greiningu og meðferð sjúklinga í heilbrigðisumdæminu, til dæmis í kjölfar slysa eða bráðra veikinda. Með nýju tæki verður jafnframt unnt að þjónusta í heimabyggð sjúklinga sem annars þyrftu að ferðast um langan veg til myndgreiningar með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði.
Með kaupum á nýju sneiðmyndatæki á Austurlandi verður stigið lokaskrefið við endurnýjun þessa mikilvæga tækjabúnaðar í öllum heilbrigðisumdæmum landsins. Kaup á nýjum tækjum eru þegar fjármögnuð og í innkaupaferli fyrir Sjúkrahúsið á Akureyri, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Aðrar heilbrigðisstofnanir hafa þegar yfir góðum tækjabúnaði að ráða.