Hoppa yfir valmynd
6. október 2022 Forsætisráðuneytið

Leiðtogar Evrópuríkja hittust í Prag

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sótti í dag fund í hinu pólitíska bandalagi Evrópuríkja (e. European Political Community, EPC) en fyrsti fundur þess fór fram í Prag í Tékklandi í dag. Um er að ræða nýjan samstarfsvettvang 44 ríkja en tilgangur hans er að leiða saman ríki Evrópu óháð því hvort þau eru innan eða utan Evrópusambandsins, eða hvar þau staðsetja sig í stofnunum Evrópu.

Á fundinum var leiðtogunum skipt upp á fjögur hringborð og stýrði Katrín Jakobsdóttir umræðum um orku-, loftslags- og efnahagsmál á einu þeirra, auk forsætisráðherra Slóveníu. Þátttakendur voru meðal annars  Liz Truss, forsætisráðherra Bretlands, Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. 

Ólöglegt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu sem skall á í kjölfar heimsfaraldursins hefur skapað gríðarlega krefjandi aðstæður en um er að ræða mestu ógn við öryggi og frið í Evrópu frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Rætt var um hvernig Evrópuríki geti unnið gegn yfirstandandi orkukreppu og unnið gegn þeim efnahagsþrengingum sem eru yfirvofandi. Síðast en ekki síst var lögð áhersla á að Evrópuríki stæðu áfram heilshugar með Úkraínu og með lýðræði, mannréttindum og réttarríkinu.

„Þessi fundur var mikilvægur fyrir margra hluta sakir en fyrst og fremst var hann til marks um órofa samstöðu Evrópuríkja í krefjandi aðstæðum. Fundarmenn áréttuðu stuðning ríkjanna við Úkraínu og rætt var um hvað væri hægt að gera til að vinna betur saman að uppbyggingu orkuinnviða, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og tryggja hag almennings á þessum erfiðu tímum.”

Tékkland, sem nú gegnir formennsku í ESB, var gestgjafi þessa fyrsta fundar. Ákveðið var að næsti fundur í hinu pólitíska bandalagi Evrópuríkja fari fram á næsta ári í ríki sem ekki á aðild að Evrópusambandinu. Í tengslum við fundinn átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með forsætisráðherra Belgíu, forseta Kosóvó og forseta Moldóvu auk þess sem hún ræddi við fjölda þjóðarleiðtoga, meðal annars um fyrirhugaða formennsku Íslands í Evrópuráðinu sem hefst í nóvember.

  • Leiðtogar Evrópuríkja hittust í Prag - mynd úr myndasafni númer 1
  • Leiðtogar Evrópuríkja hittust í Prag - mynd úr myndasafni númer 2
  • Leiðtogar Evrópuríkja hittust í Prag - mynd úr myndasafni númer 3

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta