Verkefnastjórn skipuð um gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur skipað verkefnastjórn um gerð landsáætlunar um innleiðingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Landsáætlunin er liður í lögfestingu samningsins sem kveðið er á um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.
Landsáætlunin verður meginverkfæri stjórnvalda við heildstæða stefnumótun í málaflokki fatlaðs fólks og mun fela í sér skýra framtíðarsýn. Henni er ætlað að ná til allra þeirra málasviða sem falla undir samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Markmiðin sem skilgreind verða í landsáætluninni munu byggja á greinum samningsins og þeim fylgja síðan áætlun um aðgerðir. Við setningu markmiðanna verða settir fram mælikvarðar og viðmið og jafnframt lagt mat á hvaða kostnaður komi til með að fylgja aðgerðunum svo ná megi markmiðunum fram. Framvindan verður metin á árlegu samráðsþingi.
Gert er ráð fyrir því að stefnumótun og gerð landsáætlunar um innleiðingu samningsins verði skipt upp í tvo áfanga og sá fyrri taki til tímabilsins 2022-2025 og sá síðari 2026-2030. Stefnumótunin verður samþætt við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og myndar þannig eina heild með markmiðum samningsins. Verkefnið verður unnið í víðtæku samráði og með þátttöku fatlaðs fólks, ráðuneyta, sveitarfélaga, hagsmunasamtaka, einstaklinga og almennings.
„Með þessari vinnu gefst okkur sérstakt tækifæri til þess að taka höndum saman og tryggja farsæla innleiðingu á ákvæðum samningsins í samfélaginu okkar og gera það enn betra,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. „Við þurfum að sigrast á mörgum áskorunum á leiðinni en með bjartsýni og einhug mun okkur takast ætlunarverkið og skapa samfélag sem rúmar okkur öll.“
Formaður verkefnastjórnar er Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir og aðrir í stjórninni eru Elísabet Gísladóttir, varaformaður, Guðlín Steinsdóttir, Þór Hauksson Reykdal, Hlynur Hreinsson, Gústav Aron Gústavsson, Halla Tinna Arnardóttir, Arne Friðrik Karlsson, María Ingibjörg Kristjánsdóttir, Alma Ýr Ingólfsdóttir, Héðinn Unnsteinsson og Unnur Helga Óttarsdóttir.
Þór Garðar Þórarinsson, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, er verkefnastjóri og Anna Klara Georgsdóttir, sérfræðingur í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, er starfsmaður verkefnastjórnar.