Hoppa yfir valmynd
11. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland og Suður-Kórea fagna sextíu ára stjórnmálasambandi

Fánar Íslands og Suður-Kóreu - mynd

Ísland og Suður-Kórea halda þessa dagana upp á sextíu ára stjórnmálasambandsafmæli. Löndin tóku upp formlegt stjórnmálasamband þann 10. október 1962. Af því tilefni sækir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra menningardagskrá í Hörpu í dag sem sendiráð Suður-Kóreu í Osló stendur fyrir ásamt samstarfsaðilum á Íslandi. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og Yun Seok-yeol, forseti Suður-Kóreu, skiptust á árnaðaróskum í tilefni afmælisins í gær. Gott samstarf og vinátta þjóðanna var forsetunum ofarlega í huga í bréfum sínum.

Á þeim sextíu árum sem liðin eru síðan formlegt stjórnmálasamband var tekið upp hafa löndin þróað náið samstarf á hinum ýmsu sviðum, svo sem í mennta- og menningarmálum, vísindum og ekki síst málefnum norðurslóða. Suður-Kórea hefur verið áheyrnaraðili að Norðurskautsráðinu síðan árið 2013 og verið virkur þátttakandi á þeim vettvangi. Þá sækir suður-kóresk sendinefnd Hringborð norðurslóða sem fer fram í Reykjavík dagana 13.-16. október.

Íslensk viðskiptasendinefnd undir forystu Lilju Alfreðsdóttur, menningar- og viðskiptaráðherra mun halda til Seúl í nóvember. Það eru Íslandsstofa og sendiráð Íslands í Tókýó, sem jafnframt er sendiráð Íslands gagnvart Suður-Kóreu, sem standa að skipulagningu ferðarinnar með góðri þátttöku íslenskra fyrirtækja í hinum ýmsu geirum auk þess að staðið verður að viðburðum og kynningum á sviði kvikmynda og tónlistar, sjávarútvegs og sjávarútvegstækni, orkulausnum og ferðaþjónustu.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta