Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar haldin 28. október
Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2022 verður haldin föstudaginn 28. október á Hilton Reykjavík Nordica, frá kl. 9.00-16.30.
Ráðstefnan er árlega og að vanda er dagskráin fjölbreytt og endurspeglar það margháttaða rannsókna- og þróunarstarf sem styrkt er af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Á ráðstefnunni í ár verður mest fjallað um rannsóknir sem fengu fjárveitingar úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar árið 2021. Sextán rannsóknaverkefni verða til umfjöllunar og samhliða veggspjaldasýning með um tíu verkefnum.
Í tilkynningu um ráðstefnuna á vef Vegagerðarinnar segir: „Styrkur rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar liggur í því að styrkja verkefni á mjög breiðu fræðasviði þar sem ekki er endilega einblínt á hefðbundna vegagerð. Verkefnin falla þó undir fjóra almenna flokka sem eru: mannvirki, umferð, umhverfi og samfélag.“
Ráðstefnan hefur alla jafna verið fjölsótt af starfsfólki ráðgjafa- og verkfræðistofa, verktaka og almenns áhugafólks um samgöngur og rannsóknir auk starfsfólks Vegagerðarinnar, Almennt skráningargjald er 20.000 kr. en fyrir nema 7.000 kr.