Leitað lausna vegna fjármögnunar á þjónustu við fatlað fólk
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ávarpaði í dag fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ráðherra fagnaði því að fjármögnun þjónustu við fatlað fólk í nútíð og framtíð væri til umræðu um leið og hann undirstrikaði þann mikla fjárhagslega halla sem væri á þjónustu við málaflokkinn hjá sveitarfélögum. Það væri alvarleg staða sem ríki og sveitarfélög þyrftu að takast á við í sameiningu.
„Í sameiningu leitum við því nú skýringa og við leitum lausna,“ sagði Guðmundur Ingi. Fram kom að starfshópur sem hann hefði skipað í upphafi sumars ætti að skila tillögum að kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga á grundvelli kortlagningar og rýni sem hópnum væri jafnframt falið að vinna. Ráðherra hefði óskað eftir því að fyrstu tillögur hópsins lægju fyrir í desember næstkomandi.
Guðmundur Ingi minnti sömuleiðis á að stórir hlutir væru í farvatninu í málaflokknum, enda væri kveðið á um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Vinna við gerð framkvæmdaáætlunar, eða landsáætlunar, á grundvelli samningsins væri að hefjast í þessum mánuði.
„Við eigum enn þá talsvert langt í land með að jafna tækifæri fatlaðs fólks á við ófatlað fólk. Tækifæri til mennta eru færri. Möguleikar á vinnumarkaði eru minni. En á sama tíma er framlag fatlaðs fólks til samfélagsins meira en við gerum okkur oft grein fyrir,“ sagði hann.
„Meiri fjölbreytileika fylgir opnara, manneskjulegra og betra samfélag. Vanmetum ekki kraftinn í fötluðu fólki og framlagi þess og hjálpumst að við það á næstu árum að tryggja full mannréttindi fatlaðs fólks á Íslandi.“