Samráðsfundur um aðgerðir gegn hatursorðræðu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra býður til samráðsfundar um aðgerðir gegn hatursorðræðu í Björtuloftum í Hörpu þriðjudaginn 25. október nk. kl. 16:00-17:30 vegna vinnu starfshóps gegn hatursorðræðu. Um þessar mundir skoðar starfshópurinn hvort stjórnvöld skuli setja heildstæða áætlun um samhæfðar aðgerðir gegn hatursorðræðu en hópurinn leggur áherslu á víðtækt samráð í vinnu sinni.
Forsætisráðherra flytur opnunarávarp á fundinum og dr. María Rún Bjarnadóttir, verkefnisstjóri stafræns ofbeldis hjá Ríkislögreglustjóra, flytur erindi. Að því loknu verður fundargestum skipt upp í umræðuhópa sem ræða sín á milli um aðgerðir sem grípa megi til í því augnamiði að vinna gegn hatursorðræðu og haturstjáningu í íslensku samfélagi.
Öll eru velkomin en þátttakendur eru beðnir að skrá sig á skráningarsíðu fundarins. Gott aðgengi er í Hörpu fyrir hjólastóla og táknmálstúlkun stendur til boða sé þess óskað með sjö daga fyrirvara. Boðið verður upp á hressingu.