Hoppa yfir valmynd
14. október 2022 Utanríkisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ísland veitir sérstakt framlag til enduruppbyggingar í Úkraínu

Íslensk stjórnvöld eru stofnaðilar í nýjum sjóði á vegum Alþjóðabankans sem er ætlað að styðja stjórnvöld í Úkraínu við að mæta efnahagslegum og samfélagslegum afleiðingum innrásar Rússlands og hefja enduruppbyggingu. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra tilkynnti um stofnaðild og framlag Íslands á sérstökum ráðherrafundi um stuðning við Úkraínu, sem haldinn var í tengslum við  ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington á miðvikudag. Framlag Íslands í sjóðinn nemur einni milljón Bandaríkjadala eða um 143 milljónum króna. 

Fundurinn hófst á því að Volodymir Zelensky forseti Úkraínu og Denys Smyhal forsætisráðherra Úkraínu ávörpuðu fundinn í gegnum fjarfundabúnað. Röktu þeir stöðuna og sögðu skipta miklu að umheimurinn brygðist við hertum árásum Rússa á óbreytta borgara og innviði landsins með því að standa enn þéttar við bakið á Úkraínu. Sergii Marcheko, fjármálaráðherra Úkraínu, sat ráðherrafundinn í Washington. 

Ráðherrar og leiðtogar alþjóðastofnana sem sátu fundinn tóku undir ákall leiðtoga Úkraínu og lögðu áherslu á mikilvægi þess að byggja upp orkukerfi í Úkraínu, viðhalda nauðsynlegri almannaþjónustu og örva efnahagslíf landsins. 

Alþjóðabankinn, Evrópusambandið og stjórnvöld í Úkraínu gáfu út sameiginlega yfirlýsingu í síðasta mánuði þar sem fram kom að kostnaður við enduruppbyggingu Úkraínu nemi nú þegar 349 milljörðum Bandaríkjadala. Sú tala eigi eftir að hækka eftir því sem stríðið dregst á langinn. 

Íslensk stjórnvöld hafa heitið að veita að lágmarki einum milljarði króna á þessu ári til mannúðaraðstoðar og efnahagslegs stuðnings við Úkraínu. Þar af hafa um 360 milljónir runnið til verkefna á vegum Alþjóðabankans til viðbótar við þær 143 milljónir sem tilkynnt var um á miðvikudag. Nemur stuðningur Íslands til Úkraínu á vegum Alþjóðabankans því 503 milljónum króna á árinu.

 
  • Ísland veitir sérstakt framlag til enduruppbyggingar í Úkraínu - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta