Hoppa yfir valmynd
16. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Auglýsingar til íslenskra neytenda eiga að vera á íslensku

Neytendastofa hefur tekið til meðferðar átta mál vegna tungumáls í auglýsingum sem eiga að höfða til íslenskra neytenda frá árinu 2005. Eitt mál er til skoðunar hjá stofnuninni, en samkvæmt lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu (nr. 57/2005) eiga slíkar auglýsingar að vera á íslensku. Í öllum tilfellum var auglýsingunum breytt vegna athugasemda stofnunarinnar. Á árunum 1993-2005 voru 35 sambærileg mál tekin til skoðunar á grundvelli þá gildandi laga.

 

„Beiting þessa ákvæðis er mikilvæg fyrir íslenskuna og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá fyrirtæki taka þessi tilmæli Neytendastofu til sín – en betur má ef duga skal,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra sem gerði grein fyrir málinu á ríkisstjórnarfundi.

Notkun annarra tungumála en íslensku í auglýsingum sem höfða eiga til íslenskra neytenda hefur verið til mikillar umræðu í samfélaginu. Nýverið tók stjórn Isavia ákvörðun um að breyta skiltum og upplýsingagjöf í flugstöðvum sínum þannig að íslenskunni verði gert hærra undir höfði. Áður hafði Icelandair einnig gert breytingar til að tryggja stöðu íslenskunnar um borð í flugvélum þeirra.

 

„Mér fannst einstaklega gott að sjá Icelandair halda því að bjóða farþega velkomna á íslensku og ég fagna ákvörðun stjórnar Isavia. Þetta skiptir allt máli. Stærsta verkefni okkar sem þjóðar er að efla íslenska tungu. Við stöndum á tímamótum varðandi íslenskuna og að við verðum að styðja hana með ráðum og dáðum. Við megum ekki gleyma því að þó svo að íslensk tunga sé ef til vill ekki stór í alþjóðlegum samanburði þá er hún er lykillinn að menningu okkar og hún lýkur upp heimi sem annars væri öllum hulinn,“ segir Lilja

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta