Hoppa yfir valmynd
17. október 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Þórdís Jóna Sigurðardóttir er nýr forstjóri Menntamálastofnunar

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Þórdísi Jónu Sigurðardóttur forstjóra Menntamálastofnunar til fimm ára og hefur hún störf á morgun. Þórdís mun stýra og vinna að uppbyggingu nýrrar stofnunar sem koma mun í stað Menntamálastofnunar.

Hlutverk nýrrar stofnunar er að tryggja gæði menntunar og aðgengi allra nemenda, foreldra og starfsfólks skóla að samþættri, heildstæðri skólaþjónustu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
Þórdís Jóna var metin hæfust úr hópi fjölda hæfra umsækjenda að fenginni umsögn frá ráðgefandi hæfninefnd.

Þórdís Jóna er með B.A.-próf í stjórnmálafræði og M.A.-próf í félagsfræði frá Háskóla Íslands og MBA-próf frá Vlerick Business School. Þá hefur hún einnig lokið leiðtoganámi og námi í innleiðingu stefnumótunar frá Harvard Business School.

Hún hefur umfangsmikla reynslu af fjölbreyttum umbreytingarverkefnum innan menntakerfisins og víðar og starfað við góðan orðstír. Þar má nefna uppbyggingu MBA-náms og stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík; endurskipulagningu fjármála, stjórnunar og skipulags í Hjallastefnunni; stefnumótun, sameiningu og endurskipulagningu fjölda fyrirtækja, íslenskra sem erlendra; auk aðkomu að endurskipulagningu, mótun og innleiðingu stefnu hjá fjölda stofnana.

Á starfsferli sínum hefur Þórdís Jóna komið að verkefnum úr ólíkum áttum m.a. sem framkvæmdastjóri, forstjóri, stjórnarmaður og stjórnarformaður. Víðtæk og umfangsmikil reynsla Þórdísar mun nýtast einkar vel í þeim verkefnum sem framundan eru við mótun nýrrar stofnunar sem ætlað er að styðja heildstætt við skólaþróun og farsæld barna til framtíðar.

Uppfært 17.10.22 kl. 11:07

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta