Hoppa yfir valmynd
18. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Þvingunaraðgerðir gagnvart Íran vegna Mahsa Amini

Ísland framfylgir þvingunaraðgerðum sem Evrópusambandið hefur ákveðið að grípa til gagnvart Íran vegna aðildar þarlendra stjórnvalda að dauða Mahsa Amini og ofsóknum gegn friðsömum mótmælendum.

Ráðherraráð Evrópusambandsins bætti í gær 11 einstaklingum og 4 lögaðilum á lista yfir þá sem sæta þvingunaraðgerðum skv. gildandi regluverki sambandsins. Um er að ræða einstaklinga og stofnanir, þar á meðal siðferðislögreglu og almenna lögreglu, sem ýmist eru talin bera ábyrgð á dauða ungrar konu sem sat í varðhaldi fyrir að bera ekki höfuðslæðu í samræmi við reglur, eða ofbeldisfullum aðgerðum gegn friðsömum mótmælendum í landinu.

„Mahsa Amini þurfti að gjalda með lífi sínu fyrir það eitt að hún klæddi sig ekki í samræmi við kröfur írönsku siðferðislögreglunnar. Þá hafa þau sem hafa mótmælt örlögum hennar og því ofríki sem konur í Íran þurfa að búa við sætt fádæma hörku og ofbeldi af hálfu yfirvalda. Við slíka framgöngu er ekki hægt að una heldur verður að bregðast við, bæði með skýrri fordæmingu og raunverulegum aðgerðum,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Aðgerðirnar sem nú hefur verið gripið til felast í frystingu eigna og ferðabanni til Evrópu. Ísland innleiðir Evrópugerðir vegna þvingunaraðgerða varðandi Íran. Sjálfvirkni er í reglugerðinni og því öðlast listabreytingar sjálfkrafa gildi um leið og þær eru birtar í Stjórnartíðindum ESB. Á þvingunarlista ESB vegna Írans eru nú 97 einstaklingar og átta lögaðilar. Sjá nánar um þvingunaraðgerðir á vef Stjórnarráðsins.  

Frá því að mál Amini kom upp hafa íslensk stjórnvöld beitt sér með ýmsum hætti. Utanríkisráðherra vék að örlögum hennar í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 24. september sl. Þá var Ísland á meðal þeirra ríkja sem tóku undir sameiginlega yfirlýsingu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna þar sem skorað var á Íran að gangast fyrir óháðri rannsókn á dauða Amini og virða grundvallarmannréttindi fólks. Ísland fordæmdi jafnframt framgöngu Írans í tengslum við klæðaburð kvenna í ræðu í ráðinu í lok september.

Á vettvangi mannréttindaráðsins leiðir Ísland árlega ályktun um ástand mannréttinda í Íran sem tryggir áframhaldandi umboð sérstaks skýrslugjafa til að fylgjast með og gefa mannréttindaráðinu reglubundna skýrslu um ástand mannréttindamála í landinu. Ísland styður jafnframt efnislega ályktun um mannréttindamál í Íran sem er lögð fram árlega á vettvangi allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta