Hoppa yfir valmynd
20. október 2022 Utanríkisráðuneytið

Varaforseti framkvæmdastjórnar ESB fundar með utanríkisráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Maroš Šefčovič varaforseti framkvæmdastjórnar ESB. - mynd

Samstaðan með Úkraínu, EES-samstarfið og samstarf Íslands og Evrópusambandsins voru helstu umfjöllunarefnin á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra með Maroš Šefčovič varaforseta framkvæmdastjórnar ESB í utanríkisráðuneytinu í morgun.

„Það er mikilvægt að eiga gott samstarf og samráð við okkar helstu vinaþjóðir í Evrópu og sameiginlegar stofnanir þeirra, ekki síst á þeim umbrotatímum sem við lifum nú. Heimsóknin er gott tækifæri til að kynna áherslur okkar og mál. Við vorum sammála um mikilvægi EES-samstarfsins og að samningsaðilar leggi rækt við samstarfið svo það þjóni áfram sameiginlegum hagsmunum okkar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Meðan á tveggja daga Íslandsheimsókn Šefčovičs stendur mun hann meðal annars eiga fundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, og utanríkismálanefnd. Þá hittir hann jafnframt Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands og Birgi Ármannsson forseta Alþingis.

Síðar í dag taka þau Þórdís Kolbrún og Šefčovič þátt í málþingi um EES-samninginn og áskoranir 21. aldarinnar. Utanríkisráðuneytið, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Íslensk-evrópska verslunarráðið og sendiskrifstofa Evrópusambandsins á Íslandi gangast fyrir málþinginu sem fer fram í hátíðarsal Háskóla Íslands.

Samskipti Íslands og ESB byggja á grunni sameiginlegra gilda og víðtæks samstarfs meðal annars í gegnum EES-samninginn en á þessu ári eru þrjátíu ár frá undirritun hans.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta