Fjallaskáli framtíðarinnar hlýtur hæsta styrk í síðari úthlutun Hönnunarsjóðs 2022
Hönnunarsjóður úthlutaði þann 20. október 20 styrkjum til ólíkra verkefna á sviði hönnunar og arkitektúrs og 10 ferðastyrki. Að þessu sinni var 17.5 milljón úthlutað en alls bárust 97 umsóknir um 218 milljónir í almenna styrki.
Umhverfis - og náttúruvænar byggingar, íslenskt hráefni, framleiðsla, arfleifð, og alþjóðleg sókn er meðal þess sem einkennir þau verkefni sem hlutu styrki í þessari síðari úthlutun ársins.
Fjallaskáli framtíðarinnar hlaut hæst styrkinn að þessu sinni, 2 milljónir í verkefnastyrk, um er að ræða verkefni sem Krads arkitektar eru að vinna að í samstarfi við Studio BerliNord og Teresa Himmer studio að þróun og útfærslu á fyrstu frumgerð að nýjum fjallaskála, aðlöguðum göngufólki við íslenskar aðstæ ður.
Næst hæstu styrkina hlutu Kormákur og Skjöldur, markaðs- og kynningarstyrk upp á 1.500.000 kr. sem nýtist til að koma vörulínu þeirra „Íslenskt tweed“ á erlendan markað og verkefnið Biobuilding, tilraunarannsókn og hönnunarverkefni sem er fyrsta skrefið í átt að framtíð þar sem hægt er að reisa byggingu úr íslensku hráefni, eftir Önnur Karlsdóttur, arkitekt sem hlaut 1.500.000 kr. í verkefnastyrk.
Úthlutun Hönnunarsjóðs fór fram í Grósku þar sem Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, úthlutaði styrkjum ásamt formanni stjórnar Hönnunarsjóðs, Guðrúnu Ingu Ingólfsdóttur.
Hér má finna allar nánari upplýsingar um úthlutunina.