Landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum - skipun stýrihóps
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað stýrihóp sem hefur það hlutverk að vinna tillögu að efnisþáttum og skipulagi fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Er hópnum falið að gera tillögu að vinnulagi og efnistökum við gerð áætlunarinnar.
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar er kveðið á um að unnin verði aðgerðaáætlun um samfélagslega aðlögun að loftslagsbreytingum á grunni fyrirliggjandi aðlögunarstefnu og á hópurinn við vinnu sína að horfa til stefnu stjórnvalda, Í ljósi loftslagsvár og annarra stefnumarkandi plagga.
Tillaga hópsins á m.a. að fela í sér:
- lista mögulegra aðgerða og mögulega skiptingu aðlögunaraðgerða í flokka
- fyrirkomulag við frekari mótun, útfærslu, forgangsröðun, framkvæmd og stöðumat aðgerða
- tímalínu vegna áætlanagerðar
Loftslagsbreytingar eru þegar farnar að hafa áhrif á íslenskt samfélag og lífríki bæði með beinum og afleiddum hætti, en breytingar í veðráttu, hitastigi, gróðurfari, fánu og flóru hafa þegar gert vart við sig um allt land. Til að búa samfélög undir að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga þurfa ákvarðanataka og aðlögunaraðgerðir að byggja á bestu fáanlegu vísindalegu upplýsingum og fela í sér að tekið sé tillit til áhættumats og viðmiða um ásættanlega áhættu fyrir samfélag og lífríki frammi fyrir loftslagsbreytingum.
„Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Landsáætlun um aðlögun að loftslagsbreytingum er umfangsmikið verkefni. Til að vel takist til er lykilatriði að skipulag áætlanagerðarinnar sé vel undirbúið og byggi á góðu samtali ríkis, sveitarfélaga, fyrirtækja og annarra hagaðila.“
Vinna stýrihópsins felur í sér viðamikið og reglubundið samráð og samstarf við helstu fag- og hagaðila og mun stýrihópurinn starfa með ráðgjafa sem falið verður að halda sértækar vinnustofur með helstu fag- og hagaðilum í viðeigandi geira og/eða málaflokki.
Stýrihópinn skipa:
Jens Garðar Helgason, formaður
Anna Hulda Ólafsdóttir, skrifstofustjóri Veðurstofu Íslands
Hrönn Hrafnsdóttir, sérfræðingur Samband íslenskra sveitarfélaga
Hugrún Elvarsdóttir, verkefnastjóri Samtök atvinnulífsins
Finnur Ricart Andrason, Ungir umhverfissinnar
Til vara:
Theódóra Matthíasdóttir, sérfræðingur Veðurstofu Íslands
Guðjón Bragason, sviðsstjóri Samband íslenskra sveitarfélaga
Lárus M.K. Ólafsson, viðskiptastjóri Samtök iðnaðarins
Þorgerður María Þorbjarnardóttir, Ungir umhverfissinnar
Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 31. ágúst 2023.