Skýrsla nefndar um áfallastjórnun stjórnvalda í Covid-19
Nefnd sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni og var hún rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Nefndin mun kynna skýrsluna í málstofu í Norræna húsinu kl. 14.30 í dag.
Í nefndinni sátu þau Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst sem var formaður, Guðný Björk Eydal, prófessor við Háskóla Íslands og Trausti Fannar Valsson, dósent við Háskóla Íslands. Helstu niðurstöður nefndarinnar eru þær að áfallastjórnun stjórnvalda hafi í heild sinni gengið afar vel.
„Hér voru dauðsföll af völdum faraldursins færri en víðast gerðist, þátttaka í bólusetningum afar góð, í gegnum faraldurinn treystu landsmenn yfirvöldum og ríkisstjórninni mjög vel til að grípa til viðeigandi aðgerða og þríeykið naut sérstaks trausts þjóðarinnar. Almannvarnakerfið, í samvinnu við íslenskt sóttvarnakerfi, var þanið til hins ýtrasta en stóðst prófið með miklum ágætum. Hvar sem borið er niður í greiningu blasir við mikið og óeigingjarnt vinnuframlag, mikil einbeiting og samstaða,“ segir m.a. í skýrslunni.
Nefndin setur einnig fram fjölda ábendinga sem ættu að geta nýst stjórnvöldum til að meta úrbætur í löggjöf, skipulagi og verklagi. Forsætisráðuneytið mun í samstarfi við önnur ráðuneyti fara yfir ábendingar og úrbótatækifæri sem fram koma í skýrslunni. Í framhaldi af því verður á vettvangi Stjórnarráðsins unnin samræmd aðgerðaáætlun og í samstarfi við sveitarfélög.