Utanríkisráðherra fundar á vettvangi OECD og með Evrópumálaráðherra Frakklands
Græn umskipti og jafnréttismál voru helstu umfjöllunarefnin á ráðherrafundi þróunarseturs Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD Development Centre) í París gær. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra stýrði fundinum ásamt fulltrúum Japans og Máritíus.
Í máli sínu lagði utanríkisráðherra ríka áherslu á mikilvægi jafnréttis.
„Valdefling kvenna og stúlkna er ekki aðeins hið rétta og sanngjarna í stöðunni heldur er það staðreynd að jafnrétti leiðir til hagvaxtar og er því efnahagslega mikilvægt fyrir öll ríki heims,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra á fundinum.
Þróunarsetur OECD fagnar sextíu ára afmæli í ár og því voru framtíðaráherslur í starfi þess einnig ofarlega á baugi. Þróunarsetrið er vettvangur samræðna allra aðildarríkja á jafningjagrundvelli og styður við stefnumörkun og nýsköpun í stefnumótun hins opinbera í ríkjum sem ekki eru meðlimir í OECD. Ragnheiður Elín Árnadóttir, fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði fundinn en hún gegnir stöðu framkvæmdastjóra þróunarsetursins.
Þórdís Kolbrún fundaði einnig með Mathias Cormann, framkvæmdastjóra OECD. Mikilvægi fjölþjóðasamstarfs, framfylgni alþjóðlaga til viðbótar við áherslumál Íslands hjá stofnuninni voru helstu umfjöllunarefni fundarins.
OECD gegnir lykilhlutverki í stefnumótandi vinnu hjá hinu opinbera og í samanburði á milli aðildaríkja í þágu efnahags- og félagslegra framfara.
Þá átti Þórdís Kolbrún fund með Laurence Boone, Evrópumálaráðherra Frakklands, þar sem Evrópusamstarf, alþjóðasamstarf, innrás Rússlands í Úkraínu, orkuöryggi og öryggi mikilvægra innviða komu helst til umræðu. Auk þess ræddu þau tvíhliða samskipti Íslands og Frakklands.
„Það er lykilatriði fyrir okkur að eiga í reglulegu samráði við okkar helstu samstarfsríki í Evrópu og ræða sameiginleg hagsmunamál og þær áskoranir sem ríki heims standa nú frammi fyrir vegna innrásar Rússlands í Úkraínu,“ sagði Þórdís Kolbrún.