Hoppa yfir valmynd
26. október 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fullt út úr dyrum á jafnréttisþingi 2022 um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra setti jafnréttisþing 2022 og afhenti félagasamtökunum Hennar rödd, jafnréttisviðurkenningu í Hörpu í dag en tilgangur félagsins er að stuðla að vitundarvakningu og fræðslu um málefni kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Umfjöllunarefni þingsins var staða kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði, aðgengi, möguleikar og hindranir og voru þátttakendur þingsins á fjórða hundrað manns.

Í ávarpi sínu benti forsætisráðherra meðal annars á að árangur hér á landi í jafnréttismálum hafi ekki komið af sjálfu sér heldur vegna baráttu kvenna sem á undan komu. Þá nefndi hún að þó margt hafi áunnist þá séu það enn konur sem bera hita og þunga í mörgum þeim störfum sem lægst eru launuð í samfélaginu og í þeim störfum eru konur af erlendum uppruna fjölmennar. Það þyrfti að slá nýjan tón í baráttunni fyrir launajafnrétti kynjanna með því að útrýma kynbundnum launamun og leiðrétta vanmat á störfum kvenna.

Berglind Hólm Ragnarsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, kynnti niðurstöður nýrrar rannsóknar á stöðu og líðan kvenna á Íslandi. Þar kom fram meðal annars fram að konur af erlendum uppruna eru mjög virkar á íslenskum vinnumarkaði, jafn virkar og íslenskar konur, en staða þeirra er um leið viðkvæmari en staða íslenskra kvenna og erlendra karla. Því næst fjallaði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, um efnahagslega kúgun verka og láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði, hvaða áhrif slík kúgun hefur og hvaða tól eru líklegust til að skila árangri í efnahagslegri upprisu verkakvenna.

Claudia Ashanie Wilson hdl. fjallaði um reynslu kvenna af erlendum uppruna sem búsettar eru hér á landi við að fá menntun sína viðurkennda á Íslandi og um möguleika þeirra til að fá störf við hæfi. Þá kynnti Fayrouz Nouh, doktorsnemi við Háskóla Íslands, fyrstu niðurstöður doktorsrannsóknar sinnar þar sem hún skoðar sérstaklega stöðu múslimskra kvenna á vinnumarkaði. Þar kom fram að þó aðgengi að vinnumarkaði væri ágætt þá skorti tækifæri til framgangs, þær væru félagslega einangraðar og þekktu síður réttindi sín.

Forsætisráðherra stýrði því næst panelumræðum með konum af erlendum uppruna auk fulltrúa frá aðilum vinnumarkaðar.


  • Fullt út úr dyrum á jafnréttisþingi 2022 um stöðu kvenna af erlendum uppruna  á íslenskum vinnumarkaði - mynd úr myndasafni númer 1
  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ásamt Chanel Björk Sturludóttur og Elínborgu Kolbeinsdóttur, stofnendum samtakanna Hennar rödd. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta