Hoppa yfir valmynd
29. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Innleiðing hringrásarhagkerfis — starfshópur skipaður

Þór Sigfússon. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að setja fram tillögur sem varða innleiðingu á hringrásarhagkerfi.

Stjórnvöld leggja áherslu á nauðsyn þess að innleiða hringrásarhagkerfi hér á landi sem þátt í að uppfylla markmið í loftslagsmálum og um kolefnishlutleysi. Um áramótin taka meðal annars gildi breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs, lögum um úrvinnslugjald og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem stuðla eiga að hringrásarhagkerfi. Þá var á síðasta ári gefin út stefnan Í átt að hringrásarhagkerfi, sem er heildarstefna í úrgangsmálum og settar hafa verið upp fjölmargar aðgerðir í málaflokknum til næstu ára.

Tillögur starfshópsins að innleiðingu hringrásarhagkerfis eiga m.a. að fela í sér:

  • Hvernig unnt verði að flýta eins og kostur er innleiðingu á hringrásarhagkerfi hér á landi.
  • Aukið samstarfi ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila til þess að stuðla að virku hringrásarhagkerfi.
  • Að atvinnulífið verði leiðandi í innleiðingu hringrásarhagkerfis í samstarfi við ríki og sveitarfélög.
  • Hvernig megi stuðla að opnum og gegnsæjum markaði með úrgang sem ýtt gæti undir nýsköpun hér á landi.

Starfshópurinn skal hafa samráð við hagaðila og stofnanir eftir því sem við á.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Það er mikilvægt að innleiðing á hringrásarhagkerfi hér á landi gangi sem hraðast fyrir sig og þannig leitast við að allar auðlindir verði að verðmætum í stað úrgangs.  Íslendingar hafa náð forystu á þessu sviði m.a. í nýtingu sjávarafurða en á mörgum öðrum sviðum er þörf á markvissum aðgerðum sem bæta úrgangsstjórnun og hvetja til hugarfarsbreytingar og nýsköpunar í sambandi við endurnýtingu og áframvinnslu hérlendis.  Hringrásarhagkerfið mun einnig stuðla að minna kolefnisfótspori þar sem nýting efnis, sem að óbreyttu yrði að úrgangi, dregur úr þörf fyrir nýja og mengandi framleiðslu.“

 

Starfshópinn skipa:

Þór Sigfússon, formaður,

Kristinn Árni Lár Hróbjartsson, framkvæmdastjóri,

Kristín Soffía Jónsdóttir, framkvæmdastjóri.

Með hópnum starfa Guðmundur B. Ingvarsson og Kjartan Ingvarsson frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.

 

Starfshópurinn á að skila tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. mars 2023.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta