Hoppa yfir valmynd
7. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Heimsókn forsætisráðherra til Strassborgar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í dag aðalræðuna á World Forum for Democracy sem fram fer í Strassborg. Forsætisráðherra er í vinnuheimsókn í borginni og sat m.a. ráðherrafund í morgun þar sem samþykkt var tillaga um að leiðtogafundur Evrópuráðsins verði haldinn í Reykjavík í maí á næsta ári.

Í ræðu sinni á World Forum for Democracy lagði forsætisráðherra áherslu á þá staðreynd að lýðræði og mannréttindi eiga undir högg að sækja. Áföll hafa dunið á Evrópu; efnahagsþrengingar, heimsfaraldur og ólögmæt innrás Rússa í Úkraínu sem hefur haft hörmulegar afleiðingar fyrir íbúa Úkraínu. Tæknibreytingar hafa breytt pólitískri umræðu og alræðisöflum hefur víða vaxið fiskur um hrygg. Evrópuráðið er lykilstofnun þegar kemur að því að verja lýðræði og mannréttindi og það er full þörf á því að Evrópuríki endurnýi skuldbindingar sínar gagnvart þessum grunngildum. Þá lagði forsætisráðherra áherslu á hlutverk stjórnmálaflokka, menntunar um lýðræði og mannréttindi og þátttöku allra samfélagshópa í pólitískri ákvarðanatöku. 

Fyrr í dag átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Simon Coveney, utanríkisráðherra Írlands en Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu af Írlandi nk. miðvikudag. Á fundinum ræddu ráðherrarnir formennsku Íslands sem mun standa yfir í sex mánuði, fyrirhugaðan leiðtogafund í Reykjavík og stöðuna í Úkraínu.

Forsætisráðherra flutti einnig ávarp við athöfn í Mannréttindadómstól Evrópu þar sem Róbert Spanó, fyrrverandi forseti dómstólsins, var kvaddur. Í ávarpinu þakkaði forsætisráðherra Róberti fyrir framlag hans til mannréttinda, bæði á Íslandi og á vettvangi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Þá átti forsætisráðherra fundi með Mariju Buric, framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, og Tiny Kox, forseta Evrópuráðsþingsins. Á fundunum var m.a. rætt um málefni Evrópuráðsins, formennsku Íslands, leiðtogafundinn og stöðuna í Úkraínu.

Loks átti forsætisráðherra tvíhliða fund með Salome Zourabichvili, forseta Georgíu. Á fundinum ræddu þær um samskipti Íslands og Georgíu, formennsku Íslands í Evrópuráðinu og innrásarstríð Rússlands í Úkraínu.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta