Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fyrsti Landssamráðsfundur gegn ofbeldi

Fyrsti landssamráðsfundurinn um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess verður haldinn miðvikudaginn 9. nóvember á Grand hótel. Viðburðinum verður streymt á landssamradsfundur.is þar sem dagskrá er jafnframt aðgengileg. Meginþemu fundarins eru ofbeldi meðal barna og ungmenna og þverfaglegt samráð gegn heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi og kynbundnu ofbeldi.

Að loknum erindum verða haldnar vinnustofur sem fram fara á Grand hóteli, í Háskólanum á Akureyri og í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Fullbókað er á staðfund á Grand hótel en opið er fyrir skráningu á biðlista. Enn er pláss á Akureyri og á Selfossi. 

Sjá viðburðinn á Facebook.

Markmiðið með fundinum er að gefa fulltrúum ríkis, sveitarfélaga, frjálsra félagasamtaka, rannsóknastofnana og annarra sem láta sig þessi mál varða tækifæri til að bera saman bækur sínar, kynna nýjungar, niðurstöður rannsókna og koma á framfæri tillögum til úrbóta með það að markmiði að draga úr og koma í veg fyrir ofbeldi

Landssamráðsfundur er ein þeirra aðgerða sem finna má í þingsályktun um áætlun um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess fyrir árin 2019 til 2022.

Að loknum vinnustofum verða pallborðsumræður þar sem brugðist verður við því sem fram hefur komið. Í pallborði verða:

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
  • Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra
  • Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra
  • Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri
  • Sigríður Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari
  • Guðríður Bolladóttir, settur umboðsmaður barna

Landssamráðsfundurinn er haldinn að undirlagi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og heldur hann opnunarávarp auk þess sem hann slítur fundi. Ríkislögreglustjóri sér um skipulagningu og framkvæmd fundarins og vinnustofur eru skipulagðar í samvinnu við Lögregluna á Akureyri, Háskólann á Akureyri, Lögregluna á Suðurlandi og Björgunarmiðstöðina á Selfossi.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta