Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna hafin
Tuttugasti og sjöundi aðildaríkjafundur og ráðstefna Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP27) stendur nú yfir í Sharm El Sheikh í Egyptalandi.
Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, tekur þátt í seinni viku loftslagsráðstefnunnar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda, þar sem hún mun flytja ávarp Íslands og taka þátt í fundum og hliðarviðburðum. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fékk ekki leyfi læknis til að takast á hendur það ferðalag sem ráðstefnan krefst, en ávarpar í gegnum streymi viðburð á vegum Hringborðs Norðurslóða. Ráðstefnan stendur til 18. nóvember.
Fulltrúar stjórnvalda, félagasamtaka og fyrirtækja skráðir á ráðstefnuna
Formleg sendinefnd Íslands er skipuð 17 fulltrúum frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, utanríkisráðuneytinu, matvælaráðuneytinu, Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Þá styrkir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið fulltrúa ungmenna til þátttöku á fundinum og er þetta í annað sinn sem fulltrúi ungmenna er í hinni opinberu sendinefnd.
Auk hinnar formlegu sendinefndar sækja þingmenn og fulltrúar frá félagasamtökum og fyrirtækjum viðburði sem tengjast loftslagsráðstefnunni og eru þetta í allt á fimmta tug þátttakenda frá Íslandi. Áætlað er að rúmlega 20 þúsund manns taki þátt í loftslagsráðstefnunni og tengdum viðburðum í Sharm El Sheikh.